Við erum ekki Svíar

Klukkan 21:49 að íslenskum tíma eða 23:49 að dönskum tíma þann 11. maí. Væntanlega eru líka komnar inn myndir og þá er væntanlega hlekkur á orðinu myndir.

Við vöknuðum ekki eldsnemma í morgun enda ennþá á íslenskum tíma, við vorum komin út um hálfellefu og röltum til að finna netkaffihús sem við fundum, þar sendi ég inn síðustu dagbókarfærslu.

**Dýragarðurinn** (varúð ítarlegt)
Við fórum í dýragarðinn, fengum við innganginn ítarlegan bækling á sænsku, ég hef aldrei áður farið í neinn dýragarð þannig að ég hafði mjög gaman að þessu. Niðurstöður dagsins voru að ljón og tígrisdýr eru leiðinleg dýr á meðan hlébarðarnir halda upp heiðri kattanna.

Fílarnir voru misskemmtilegir, einn var þó svalur og festi meðal annars trjágrein á milli ranans og tannar án þess að taka nokkuð meira eftir því en ef ég hefði slett sósu í skeggið mitt.

Ég var ákaflega veikur fyrir lamadýrunum, sérstaklega einu sem kom alveg upp að mér, ég náði góðri mynd þar.

Aparnir voru margir mjög skemmtilegir og þá voru bavíanarnir sérlega áhugaverðir, það er ótrúlegt að það finnist hálfvitar sem neita því við séum skyldir öpum (eða einsog ég segi: Við erum öll apar) þegar maður getur séð hve mannlegir þeir eru. Ég var ákaflega hrifinn af einum gömlum apa en parið með litla krílið var þó skemmtilegast, sérstaklega þegar mamman hélt í skottið á krakkanum til að hann færi sér ekki að voða.

Við skruppum inn í eitthvað næturdýrahús þar sem allt var dimmt, þar náðu leðurblökurnar að hræða mig. Rotturnar sem voru í boði klóakþjónustunnar sýndu sig ekki en á móti kom múrmeldýrið (held að það hafi verið múrmeldýr) sem, samkvæmt uppsetningunni, býr í ruslutunnum í Bandaríkjunum.

Það var gaman að sjá gírafa og nashyrninga en þeir voru ekki með neitt „show“ ólíkt ísbirninum sem dansaði frístæl.

Uppáhaldsdýrið okkar Eyglóar er dýr sem ég kann ekki einu sinni að nefna, man ekki einu sinni enska nafnið á því. Það er ekki ósvipað bifri og er mikið í vatni, þetta er reyndar líka augljóslega töluvert skylt naggrísi. Við fengum að sjá dýrin eðla sig og síðan éta, þá var dásamlega fyndið að sjá einn nagbifurgrísinn eyða heillöngum tíma í að þurrka sér áður en hann fór að fá sér gulrót.

Í húsdýragarðinum hitti ég gamla geit og fékk mynd af mér með henni. Danir eru greinilega mikið að nýta þennan húsdýragarð til að fræða krakkana um hvaðan kjöt kemur, mér þótti samt óþarfi af þeim að hafa mynd af steiktum naggrís.

Ég var ákaflega glaður að fá að sjá risaskjaldböku, maður skilur alveg af hverju þessi dýr voru valin til þess að bera heiminn á bakinu, Great-A-Tuin. Skjaldbökur alla leið niður. Við sáum líka litlar skjaldbökur sem var gaman af því ég er einmitt að lesa um þesslags bökur í Small Gods.

Eitt það síðasta sem við afi spjölluðum um áður en hann dó var það að það væri nauðsynlegt fyrir mig að fara í dýragarðinn í Kaupmannahöfn næst þegar ég færi því ég sleppti því síðast.

**Á leið á Bakken og af Bakken**
Við ákváðum að fara á Bakken og til þess brúktum við lestina. Við fengum góðar leiðbeiningar og voru meiraðsegja svo heppin að lestin var á sporinu einmitt þegar við komum niður. Ég fór reyndar að pæla aðeins í því hvers vegna tímasetningin passaði ekki við lestarplanið sem ég hafði en ég hætti að hafa áhyggjur þegar ég sá að allar stoppistöðvarnar pössuðu við planið.

Ég byrjaði aftur að hafa áhyggjur þegar lestin stoppaði ekki í Klampenborg þar sem Bakken er. Ég ákvað að spyrja konuna sem var einmitt að fara að tjékka miðana okkar um þetta, hún upplýsti okkur um að þessi lest stoppaði ekki íKlampenborg, konan skoðaði síðan miðana okkar og sagði okkur að fara af fyrsta farrými (Strax!). Konan sagði næst parinu sem var með okkur þarna að hypja sig af fyrsta farrými líka, þá fattaði ég að þetta par var ekki danskt en ég hefði getað sagt sjálfum mér það þar sem þetta var eina fólkið sem settist með okkur í reyklausa hlutann.

Við röltum um lestina með hinum útlendingunum en fundum ekkert sæti, við ákváðum að fara ekki lengra út á Sjáland og fórum út á næsta stoppi sem var Kokkedal. Eftir að hafa skoðað leiðabókina vel og vandlega fundum við út hvers vegna lestin hafði ekki stoppað á réttum stað, þetta var einhvers konar hraðlest. Við fundum líka út hvaða lest við ættum að taka til baka en þurftum reyndar að vanda okkur við valið á lest af því að á sama tíma átti einmitt að koma hraðlest sem einmitt sleppti Klampenborg líka.

Við náðum réttri lest og enduðum í Klampenborg, þar fórum við í bókabúð og fengum leiðbeiningar að Bakken. Við ákváðum eftir smá umhugsun að kaupa okkur „kort“ í allar ferðirnar til þess að prufa sem mest, það var ekki góð ákvörðun.

Við fórum fyrst í klessubílana sem var gaman, fullt af gelgjustrákum að fá útrás fyrir hormónana sína klesstu á okkur í sífellu á meðan við gerðum þetta rétt og keyrðum bara í hringi…

Næst stukkum við upp í hringekju enda er ekki laust við að ég hafi fengið smá í bakið af klessubílunum. Hringekjan var stórfín fyrir rómantíska parið.

Þá kom að því að við ákváðum að stökkva bara í næsta tæki, það minnti mig örlítið á kolkrabbann í Hveragerði (var það ekki kolkrabbi) þannig að ég hafði ekki áhyggjur, stór mistök. Tækið snerist upp og niður fram og til baka, mér fannst einsog lappirnar mínar myndu slengjast utan í eitthvað. Þetta tæki var samt ekki ofurslæmt, í raun bara smá skemmtilegt.

Eftir þessa lífsreynslu ákváðum við að fara í eitthvað sem líktist hringekju, reyndar hraðskreiðri hringekju en ég bjóst ekki við neinu hættulegu þó þetta héti Astrotest eða eitthvað álíka, þetta voru stærstu mistök dagsins. Afgreiðslumaðurinn, sem hélt að ég væri Svíi bauð okkur að vera í sama vagninum sem við þáðum. Okkur brá aðeins þegar að við sáum að hringekjan virtist ætla að fara aðeins upp og niður, okkur brá meira þegar við sáum að hrinekjan fór aðallega bara upp. Við fórum ótal hringi þar sem við vorum mikið á hvolfi. Ef ég hefði verið einn þá hefði ég væntanlega gefið eftir og ælt eða leyft mér að falla í yfirlið, ég eyddi ferðinni í að halda í Eygló og fara með ástarjátningar. Þetta tæki var ekkert skemmtilegt, það bara einfaldlega reyndi á magann og höfuðið.

Þegar við komum úr þessar „hringekju“ þá settumst við strax niður, eftir þónokkurn tíma gengum við yfir götuna og settumst niður, næst gengum við aðeins niðureftir og settumst niður. Mér leið afar illa og hef hugsanlega setið í svona hálftíma eða eitthvað, Eygló var aðeins hressari en ekki mikið, hún tók meðal annars eftir því að fólk starði á mig. Það bætti ekki líðan mína þegar fólk gekk reglulega framhjá með sígarettur, það vekur venjulega hjá mér ógeðstilfinningu og við þessar kringumstæður var það hrikalegt. Þegar mér leið nógu vel til þess að hugsa þá ákváðum við að fara heim.

Okkur gekk vel að lestarstöðinni en þegar lestin fór af stað fékk ég aftur í hausinn og magann, ég eyddi því ferðinni með höfuðið á borðinu fyrir framan mig. Ég var ákaflega glaður að komast útúr lestinni en minna glaður þegar ég gekk beint inn í sígarettureyk, ég komst upp rúllustigann og ætlaði að setjast á bak en á öllum bekkjum var reykjandi fólk. Ég endaði með að láta mig hrynja upp við einhverja lyftuhús á miðri lestarstöðinni, þá fór Eygló að leita sér að HIV dós sem henni sýndist vera seld í sjoppunni þarna. Þegar Eygló sneri til baka þá leið mér ágætlega þannig að við ákváðum að rölta heim.

Mér líður ágætlega núna…