Safnadagur

Þetta er skrifað 18:57 að íslenskum tíma en 20:57 að dönskum tíma þann 13. maí 2004.

Vöknuðum við framkvæmdir.

Þessi dagur fór í að skoða söfn og reyndar borgina líka. Við byrjuðum á því að fara á túristamiðstöðina að kaupa okkur kort sem gildir á fjölmarga staði í borginni, virkar líka í lestir og strætó. Það gekk reyndar ekki alveg nógu vel að kaupa kortið þar sem posi túristimiðstöðvarinnar var ekki tengdur vegna flutninga og síðan vegna þess að Eygló fannst það góð hugmynd að láta kortið ekki byrja að gilda fyrren klukkan 11:00.

Á meðan við vorum að bíða eftir að kortið yrði gilt þá fórum við á kaffihús, þar fengum við rúnstykki með osti. Þegar konan var að undirbúa morgunverðinn fundum við stæka lykt, ég gerði ráð fyrir að hún væri af einhverjum viðskiptavini en þegar við vorum búin að setjast við borð utan við kaffihúsið þá var lyktin ennþá til staðar. Eftir smá rannsóknarvinnu þá fann Eygló út að lyktin væri af ostinum, hún ákvað nú samt að smakka en bragðið var víst eins slæmt og lyktin (einsog táfýla). Danskur ostur er ekki veislukostur.

Við náðum að komast í réttan strætó og náðum að fara úr honum á cirka réttum stað, við Amelíuborg. Þar þurfti að borga fyrir að taka myndir þannig að ég sleppti því. Það var reyndar skemmtilegt safn, skrifstofur kónganna í því ástandi sem þeir skyldu við þær.

Mér fannst einstaklega gaman að sjá muninn á skrifstofu Kristjáns níunda (sem er með stjórnarskránna fyrir framan stjórnarráðið ef ég man rétt) og skrifstofu pabba hans sem var Friðrik númer eitthvað. Friðrik var með ægilega karlmannlega skrifstofu, þar á meðal með ísbjarnarfeld á gólfinu en Kristján níundi var greinilega öruggari um kynhneigð sína og var því með styttu af ísbirni með regnhlíf á skrifstofu sinni. Á þessu safni var Dani sem var ákaflega mikið að tala við okkur þó við hefðum töluðum saman á íslensku fyrir framan hann.

Þegar við komum út þá var greinilegt að eitthvað mikið var að ske en við hoppuðum yfir í Marmarakirkjuna, það verður að segjast að hún er flott og ef byggingar væru sönnun fyrir tilvist guðs þá væri þessi væntanlega á listanum. En byggingar sanna ekkert um tilvist guðs, þessi bygging sannar hins vegar tilvist náunga sem vildi svo endilega komast til himna að hann gaf afskaplega mikið af peningum til kirkjubyggingarinnar.

Eftir að við vorum búin að fara í Marmarakirkjuna kíktum við aftur á stemminguna við Amalíuborg og þá kom í ljós að það var verið að skipta um vörð. Ég fékk töluverðan kjánahroll við að horfa á þessa náunga klædda í fáránlega búninga marsera þarna um, svona svipað einsog ég sé Karl biskup kukla, Karl biskup er hins vegar ekki með hríðskotabyssu þannig að maður hlær beint í fésið á honum.

Þegar við höfðum fengið nóg af kjánunum marserandi þá röltum við í átt að Nyhavn en á leiðinni komu svartir bílar í lögreglufylgd, í þessum bílum sýndist mér ég sjá drottninguna (en ég er alls ekki viss um það vegna hraðans) og líka Alexöndru og Jóakim (ég er aðeins vissari um það), myndirnar sem ég náði voru ekki það góðar að þær sanni neitt. Reyndar hefur verið mjög mikið um svarta bíla í lögreglufylgd undanfarna daga en þetta var greinilega konungsfjöldskyldan.

Planið var að fara út Kanalsiglingu frá Nyhavn en Eygló hætti næstum því við þegar hún sá að við höfnina beið stór hópur af vopnfirskum unglingum, einmitt í samskonar skólaferðalagi og hún fór í fyrir fimm árum. Ég sannfærði Eygló um að koma með en hún heimtaði að sitja langt frá sveitungum sínum.

Siglingin var mjög skemmtileg, og fróðleg líka, ég vissi ekki að Litlu hafmeyjunni hefði verið ýtt út í í fyrra. Við sáum líka snekkju konungsfjölskyldunnar og þar var eitthvað um að vera, einhverjir mikilvægir voru þarna miðað við að við sáum sérsveitarmenn í hraðbát. Þetta var skemmtilegt sjónarhorn á Kaupmannahöfn.

Eftir siglinguna röltum við í átt að Kristjánsborg þar sem mörg söfnin sem við ætluðum að skoða eru. Fyrst skoðuðum við rústirnar undir kastalanum, meðal annars leyfar kastala Absalons biskup (sem er fyrir framan Kristjánsborg með exi í hönd). Rústirnar voru áhugaverðar, líka módelin og myndirnar, ég mæli með þessu.

Við ætluðum næst að skoða inn í Kristjánsborg en það var lokað vegna einkasamkvæmis (í heila viku), við fengum þó í sárabót að sjá kjána á hestum, greyjið hestarnir voru froðfellandi vegna hita.

Við stúderuðum kortið til að sjá hvað við gætum séð í staðinn fyrir móttökusal Kristjánsborgar og þá var vopnasafnið valið enda rétt hjá. Ég man ekki eftir að nokkur hafi sagt mér frá þessu safni en það er magnað, aðallega vegna þess hve mikið er þarna, við vorum óralengi að skoða þetta. Hver hefði haldið að það þyrfti svona mörg vopn til að tapa stríðum? Þeir sem vinna stríðin hljóta að eiga miklu fleiri. Meðal annars sáum við eitthvað stríðstól sem ég skyldi ekkert hvernig virkaði, þyrfti að komast að því, ég sá nefnilega ekkert gagn að því nema ef óvinirnir hefðu rölt undir það.

Vopnaminjasafnið tók miklu lengri tíma en við áætluðum þannig að við ákváðum að fara í fyrramálið á þjóðminjasafnið og taka Thorvaldssensafnið þá og þegar. Það er merkilegt hvað Danir eru lítið fyrir það að minnast á það að hann Bertel var Íslendingur, þeir eru bara alveg einsog Norðmenn að stela af okkur mikilmennunum. Thorvaldssensafn var skemmtilegra en ég hélt, sérstaklega þótti mér gaman að því hvað maðurinn var góður að gera typpi sem vekur hjá manni grunsemdir, það er nú ekki óþekkt að höggmyndalistamenn séu þannnig.

Við vorum svöng eftir Thorvaldssen og flýttum okkur á Jensens Böfhús þar sem við fengum tveir fyrir einn, maturinn var ágætur en ég er ekki góður að borða rif. Síðasta stopp dagsins var hjá Tycho Brahe en það var bara stutt, fengum að sjá alheiminn og svarthol en slepptum mynd um adrenalínfíkla.