Hun sagde ja

Ég skrifa þetta klukkan 16:54 að íslenskum tíma og 18:54 að dönskum tíma.

Kallarnir sem eru að störfum í portinu voru ekkert of háværir í morgun þannig að við gátum sofið til svona 9:00. Við vorum ákveðin í að ná ókeypis morgunverði og hann fengum við á Axelstorgi í boði danskra landmanna sem við höldum að séu bændur en þeir litu ekkert út fyrir að vera bændur. Ég fékk einhverjar bollur sem brögðuðust einsog bolludagsbollur en það er ekkert sérstaklega jákvætt.

Við vorum ákveðin í að komast á Þjóðminjasafnið áður en Kaupmannahafnarkortið rynni út og það gerðum við, kvöldið áður hafði Eygló giskað á að við myndum eyða einum og hálfum tíma þar og þá leit ég hneykslaður á hana. Eygló hélt að ég byggist við að eyða minni tíma þarna en hún hafði svo sannarlega rangt fyrir sér. Við skoðuðum margt og mikið þarna inni og þurftum í raun að ákveða að fara út eftir tvo og hálfan tíma.

Við vorum ákaflega óviss um hvert við ættum að fara næst, þegar við nálguðumst Strikið og Vorfrúarkirkju þá varð löggæslan meira áberandi. Ég sá líka leitað á einhverjum kalli þarna og bjóst jafnvel við að það yrði leitað á mér en það gerðist ekki, löggan leitaði ekki á neinum öðrum. Ég áttaði mig síðan á því hvers vegna þessi náungi var tekinn fyrir, hann leit út fyrir að vera múslími, það pirraði mig svoltið. Við enduðum á einhverjum mexíkönskum stað sem heitir Papas. Maturinn þar var ágætur.

Næst var stefnt á aðalalmenningsbókasafnið í Kaupmannahöfn og á leiðinni þangað gegnum við framhjá Vorfrúarkirkju, þar var girt í kringum og brúðkaupsgestir farnir að streyma að. Bókasafnið var ágætt, full mikið af bleikum borðum fyrir minn smekk en gott teiknimyndasögusafn.

Við röltum síðan aðeins og kíktum í búðir, keyptum tvær DVD myndir og Eygló keypti tvo boli. Skemmtilegasta verslunin var í nokkrum pörtum, alger nördabúð með roleplaydóti, spilum, teiknimyndasögum og fullt af búningum, við vorum næstum búin að kaupa Lord of the Rings Risk en hættum við þegar við sáum að öll staðarnöfnin voru á dönsku. Við röltum aðeins meira um og enduðum aftur hjá Vorfrúarkirkju og sáum þar nokkra eðalvagna keyra að, Eygló vildi endilega reyna að komast á betri stað og þess vegna misstum við af því þegar Mary kom að kirkjunni (held ég, veit ekki fyrir víst enda missti ég af því).

Eftir þetta fórum við niður á Strik og fylgdumst með fólkinu, við sátum fyrir framan Heilagsandakirkju með tveimur dönskum konum sem voru mikið að spjalla við mig þar til þær föttuðu að ég var ekki Dani. Hápunktur biðarinnar var þegar gríðarleg fagnaðarlæti brutust út og okkur var sagt: „hun sagde ja“.

Við biðum þarna það lengi að ég skammast mín eiginlega fyrir það, reyndar hélt ég að þau færu alveg að koma vegna þess að lögreglan var búin að hreinsa fólkið út af miðju Striksins. Löggan var reyndar ekki öflug í að halda aftur af fólki sem fór yfir mörkin, ég sá litla stúlku sem var miklu duglegri við það.

Undanfarna daga hafa sveimað þyrlur yfir miðbænum, þær voru mjög áberandi í dag og önnur þeirra virtist fylgja hestvagninum þeirra Mary og Friðriks eftir að þau lögðu af stað.

Eftir þessa löngu bið varð maður loksins spenntur þegar fólkið sem var dáltið í burtu byrjaði að fagna en það gerðist reyndar nokkrum sinnum áður en nokkuð áhugavert gerðist, loksins dró til tíðinda þegar fólkið fagnaði lögreglumönnum á mótorhjólum, á eftir þeim komu nokkrir lögreglubílar.

Loksins komu einhverjir uppstrílaðir hermenn á hestum, mér fannst eiginlega einsog ég hefði stigið aftur í aldir, þarna voru fullt af köllum klæddir einsog náunginn á Macintoshdósinni. Mary og Friðrik komu á eftir mönnunum í grímubúningunum, Friðrik vinkaði mér fallega en mér fannst Mary eitthvað utan við sig sem er svosem skiljanlegt miðað við aðstæður. Síðan fóru þau framhjá og þá komu fleiri monthestakallar en að lokum skemmtilegt par, svört hestalögga (væntanlega eini óhvíti maðurinn í hersingunni) og kvenlögga sem virtust vera að fíla sig í botn ólíkt grímubúningahermönnunm.

Ég stóð við það að veifa ekki fána en reyndar var ég með tvo í pokanum svo þeir sáust greinilega, einn danskan og einn ástralskan, ástralski fáninn hefur verið ákaflega áberandi hérna undanfarna daga og okkur Eygló var báðum gefinn slíkur fáni.

Á eftir síðustu löggunum kom mannfjöldi sem var að fara í aðra átt en við þannig að við hoppuðum upp hliðargötu til að komast undan en það gekk reyndar ekki vel, við enduðum upp hjá Vorfrúarkirkju og komumst ekki lengra í átt að hótelinu okkur þar. Fyrir utan kirkjuna var hópur af fólki sem ég hélt fyrst að væru leikarar í búningum í tilefni dagsins en síðan fattaði ég að þetta voru aðalsmennirnir og einhverjir biskupar með, alveg var þetta fólk útúr kú.

Það var erfitt en við komumst á Ráðhústorgið og ég ætlaði að koma mér heim en á miðri leið yfir götu ákvað Eygló að það væri góð hugmynd að fylgjast með hjónunum veifa á risaskjánum sem var þarna. Við fylgdumst með þegar Mary og Friðrik veifuðu og heyrðum Dani fagna „en historisk kys“ sem mér fannst ekkert sérstaklega sögulegur. En þetta var samt áhugavert allt saman, þetta kóngafólk eru lifandi safngripir, ég er ákaflega hissa að það nái að plata nýtt fólk í showið en Mary samþykkti það.