Skrifað klukkan 21:27 að íslenskum tíma en 23:27 að dönskum tíma þann 14. maí.
Við ákváðum að fá afskaplega einfaldan kvöldmat og enduðum því á litlum matsölustað hér á horninu, örlítill staður, bara hola eiginlega. Þarna fengum við ódýrustu máltíð ferðarinnar. Við pöntuðum pizzu fyrir tvo og tvær hálfslítra flöskur af gosi, þetta kostaði okkur 90 krónur danskar. Pizzan var góð og við urðum bæði ágætlega södd.
Nú var ferðinni heitið í Tívolí. Ég var svo aumur að ég var ekki á leiðinni í nein tæki, þar að auki er ég ennþá miður mín eftir Bakken reynsluna. Í staðinn fyrir að fara í ferðir röltum við aðeins um og tókum þátt í leikjum, ég vann lítinn ástarjátningarbangsa handa Eygló með því að rúlla billiardkúlum (6 af 12) í gat, síðan vann ég hálfgerðan Gorm (einsog í Sval & Val) með því að kasta boltum í tunnu með sjóræningja og að lokum vann Eygló kanínu í sama leik án nokkurrar aðstoðar frá mér. Eygló keypti sér síðan einhverja ástarinniskó. Við vorum ægilega rómó þarna.
Mér fannst staðurinn annars ekkert of merkilegur, frekar mikið peningaplokk og svona. Sumt dótið þarna minnti mig á Las Vegas, svona eftirhermur af fjarlægum menningum. Hvernig ætli Tívolí hafi verið þegar það opnaði fyrst? Það hefði verið áhugavert að sjá.
Annars þá má geta þess að við Eygló erum orðin sleip í að leika Dani, á sumum stöðum höfum við alveg platað afgreiðslufólkið, náunginn á vopnasafninu var til dæmis steinhissa þegar hann bað Eygló um að fylla út könnun um reynslu sína þar og hún valdi ensku útgáfuna af henni. Eygló lenti í því í dag að segja svoltla vitleysu, afgreiðslumaðurinn sagði eitthvað á þá leið að við ættum að tala við hann ef við þörfnuðumst einhvers og Eygló sagði „Nej“ í þeirri trú að hann hefði verið að spyrja hvort hann gæti aðstoðað. Það truflar mann að vísu að nota dönskuna því maður ruglast alveg þegar maður neyðist til að skipta yfir í enskuna