Ástæðan fyrir því að ég er ánægður með ákvörðun Ólafs Ragnars er fyrst og fremst sú að nú er hægt að líta á málskotsréttinn sem raunverulegan möguleika, í framtíðinni verða ríkisstjórnir að hugsa til málskotsréttsins þegar þær reyna að koma óvinsælum og umdeildum lögum í gegn, það er ekki lengur hægt að hunsa andstöðu almennings án þess að óttast eftirköst. Þó að ríkisstjórn hafi meirihluta á þingi þá þýðir það ekki að hún geti gert það sem hún vill í fjögur ár, hún þarf að taka tillit til almennings.
Hefði Ólafur frekar átt að nýta þennan rétt á öðrum tíma? Hugsanlega, en það segir ekkert um hvort hann hefði átt að gera þetta núna, þetta hlýtur ávallt að vera persónulegt mat forsetans.
Síðan er spurningin hvort að rétturinn til að fá þjóðaratkvæðagreiðslu um lög ætti að vera hjá forsetanum eða hvort það ætti frekar að gerast þegar ákveðinn hluti þjóðarinnar krefst þess en það mikilvægasta í málinu er að þessi möguleiki sé fyrir hendi.