Það er óendanlega heimskulegt að halda því fram að það þurfi allavega rúmlega 50% kosningabærra manna til að fella fjölmiðlafrumvarpið, það er bara út í hött. Aðalástæðan er einfaldlega sú að svona reglur myndu gera það að verkum að hver einasta manneskja sem nennir ekki að kjósa, kemst ekki að kjósa eða vill ekki kjósa er sjálfkrafa sett í hóp stuðningsmanna frumvarpsins. Með þessu kerfi yrði afstöðuleysi túlkað sem afstaða sem ótækt með öllu. Þetta myndi þýða að þeir sem styðja frumvarpið þyrftu ekki að mæta á kjörstað en hinir andvígu yrðu að gera það.
Þegar 75%/50% reglan var í flugvallarkosningunum þá þýddi það ekki að ónæg þátttaka yrði túlkuð sem já eða nei. Það var ekki þannig að ef 49% hefðu mætt á kjörstað og kosið flugvöllinn burt þá hefði flugvöllurinn sjálfkrafa verið kyrr. Það var ekki gerð nein tilraun til að túlka afstöðu þeirra sem heima sátu.
Í alþingiskosningum, sveitastjórnarkosningum og forsetakosningum þá er ekki tekið neitt tillit til þeirra sem mæta ekki né þeirra sem skila auðu, þeirra hjáseta er ekki túlkuð sem afstaða og það væri fáránlegt að fara að byrja á því í þessum kosningum. Lýðræði er fyrir þá sem mæta, það er kerfið sem við búum við og við eigum að fylgja því.