Má ekki spila eitt gott lag?

Ég var í gær í Kringlunni með Eygló, þar var fullt af fólki og leiðinlegt loft (tek fram að almennt er ég ekki of neikvæður fyrir Kringlunni). Eftir nokkrar búðir var ég að fá nóg og fór því aðeins út til að fá mér ferskt loft, ég minnist á þetta af því þar sem ég var þarna sem aumastur að anda að mér lofti heilsaði Særún mér.

Hvað um það.

Næsta búð var Deres og viti menn, það var verið að spila Kashmir með Led Zeppelin þegar ég gekk inn um dyrnar, þvílík gleði sem spratt fram í mínu litla hjarta, ég sá fyrir mér að lifa af þessa búð bara út af laginu en… Einhver lúðinn í búðinni hefur tekið eftir að það hafði komist almennilegt lag í spilun og hljóp til og skipti um lag, spilaði eitthvað persónuleikalaust og ógeðslegt, ég flúði búðina. Það mátti greinilega ekki einu sinni spila eitt gott lag.