Erfitt að fá ókeypis sendingu

Ég veit ekki hvort ég hef minnst á þetta áður en það voru mistök með pöntun sem ég fékk frá Amazon um daginn. Indiana Jones pakkinn innihélt tvö eintök af Indiana Jones and the last Crusade en ekkert af Temple of Doom, ég þurfti þar af leiðandi að senda þetta til baka.

Fyrir viku fékk ég tilkynningu um að ég hefði fengið sendingu sem biði eftir mér á Tollmiðstöð póstsins upp á Stórhöfða þó vanalega sé svona sent heim. Mig grunaði hvað vandamálið væri og fékk það staðfest núna áðan þegar ég fór að ná í þetta, mér var nefnilega sagt að það vantaði reikninginn. Ég benti að sjálfssögðu um leið á þá staðreynd að reikningurinn væri þarna og það væri bara stórt núll á honum.

Starfsmenn póstsins vildu bara ekki trúa því að þetta kostaði ekki neitt þó það hefði verið einfalt mál fyrir þá að lesa bréfið sem fylgdi til að átta sig á stöðunni en nei það þurfti að draga mig alla leið uppeftir. Héldu þeir að ég væri í einhverju samsæri við Amazon um að sleppa við toll á nokkrum dvd-diskum.

Þetta reddaðist þó þegar ég mætti og sagði frá þessu, nú get ég horft á þessar aukamínútur af Temple of Doom sem hafa verið klipptar úr flestum ef ekki öllum evrópskum útgáfum af myndinni.