Hvað ef Ólafur Ragnar hefði skrifað undir fjölmiðlalögin? Ég hefði ekki haft fyrir því að mæta á kjörstað og ég veit um ótal marga sem hefðu líka hunsað kosningarnar. Einhverjir sem skiluðu auðu hefðu kannski kosið hann en áttum okkur á því að það er ótrúlega stór hópur sem hefði aldrei kosið kallinn þannig að það að túlka öll auðu atkvæðin sem viðbrögð við því að Ólafur neitaði að skrifa undir er bara út í hött. Margir hafa hræsnað gríðarlega síðastliðinn mánuð og kallað upp fyrir sig að Ólafur sé ekki lengur sameiningartákn þjóðarinnar þó að þeir hafi í raun aldrei litið á hann sem neitt sameiningartákn.
Eitt það heimskulegasta sem hefur komið fram í umræðunni síðustu daga er að bera kosningaþátttöku saman við síðustu Alþingiskosningar sem voru ákaflega spennandi með mikilli kjörsókn. Hið eina rétt er að bera kosningaþátttöku saman við það þegar Vigdís fékk mótframboð 1988, þátttakan þá var frekar lítil enda var þar líka um að ræða kosningar þar sem allir vissu fyrirfram hvernig færu.
Mér þykir undarlegt að fólk skuli taka útkomuna (93% þátttaka) úr könnun Fréttablaðsins um kosningaþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni án nokkurra fyrirvara, það fyrsta sem ég leit á þegar ég sá fréttina var hve stór hópur neitaði að svara og það var um 40%. Ég hefði haldið að þessi 40% sem neitað svara væru einmitt ólíklegri til þess að kjósa heldur en þeir sem svöruðu. Þessi 40% eru væntanlega ekki með miklar skoðanir á málinu á meðan restin er líklega þeir sem hafa sterkar skoðanir.
Ég fatta annars ekki hvað Sjálfstæðisflokknum gengur til með því að ætla að hafa láta þessi 44% takmörk gilda í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þeir geta eiginlega ekki annað en tapað á þessu. Þeir fá kjósendur upp á móti sér með þessu,hvetja andstæðinga laganna til þess að mæta en að sama skapi hvetur þetta stuðningsmennina til þess að sitja heima. Í raun væri versta útkoman fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þjóðaratkvæðagreiðslunni ekki ef 44% þjóðarinnar myndu greiða atkvæði gegn frumvarpinu heldur ef 43.99% myndu greiða atkvæði gegn því, það myndi hleypa illu blóði í fólk. Þessi 44% mörk eru fífldirfska af hálfu Sjálfstæðisflokksins með áherslu á orðinu **fífl**.