Björn Bjarnason ritskoðar sjálfan sig fram og til baka

Í Fréttablaðinu í dag (þriðjudag) kemur fram að Björn Bjarnason breytti mánaðargömlum pistli sínum nokkrum sinnum í gær. Hann byrjaði víst á að taka út orðið brellur, hann tók næst og lét orðið aftur inn en þá innan gæsalappa. Hann hefur breytt þessu aftur eftir að blaðamaður Fréttablaðsins kíkti þarna síðast inn og þá fært orðalagið aftur í upprunalegt horf,nú sést bara ein breyting frá textanum sem ég vitnaði í á sunnudag og það er að Björn hefur látið punkt í staðinn fyrir kommu sem var þarna á vitlausum stað.

Ég er annars ennþá gáttaður á þessu útspili ríkisstjórnarinnar, þetta er bara fáránlegt og ég get engan veginn séð að það megi hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forsetinn hefur neitað að skrifa undir lög, hvernig er hægt að bregðast við þegar stjórnvöld brjóta stjórnarskránna? Fara í mál? Hver er þá refsingin? Mikið vildi ég að menn væru látnir sæta ábyrgð gerða sinna.

Það er annars greinilegt að allt tal um það eigi að ná sátt um fjölmiðlalögin er bara kjaftæði, það á bara að renna aðeins breyttri útgáfu laganna í gegn og veðja á að Ólafur sjái sér ekki fært að neita og að almenningur verði orðinn leiður á málinu.

Ég er nokkuð viss um að ég væri að skrifa miklu reiðilegri pistla um þetta mál ef ég væri ekki ennþá svona undrandi á þessu.