Mér finnst þessi frétt á Netmogganum áhugaverð, hún fjallar um fólk sem sá að það var eldur í einhverju húsi í Mosfellsbæ. Fólkið fór inn í húsið, sá að það hafði kviknað í sófa og ákváðu að halda á sófanum út. Ég skil ekki hvernig fólkinu datt þetta í hug, mín fyrstu viðbrögð hefðu verið að reyna að slökkva eldinn, þessi aðferð þeirra virkaði reyndar en ég veit ekki alveg hvort hún sé almennt góð.
Annars þá fór brunakerfið í gang hérna áðan, hljóðið í bjöllunni var eitthvað svo rólegt að manni datt ekki í hug að það væri eitthvað hættulegt á seyði. Við röltum um allt í leit að eld en fundum ekki einn einasta brennandi sófa til að fara með út.
Mín reynsla er sú að þegar fólk heyrir í svona viðvörunarkerfum þá gerir það eiginlega alltaf ráð fyrir því að um bilun sé að ræða og að sjálfssögðu er yfirleitt um bilun að ræða, enginn hleypur út um leið og enginn æsir sig nema ef hávaðinn er yfirgengilegur.
Annars þá fer reykskynjarinn heima alltaf reglulega af stað út af gufu sem kemur af baðherberginu, ef ég man rétt þá þýðir það að skynjarinn sé optískur frekar en jónískur. Ég man allavega fyrir víst að ég ráðlagði fólki sem keypti sér slíkan skynjara að koma honum ekki fyrir rétt hjá baðherbergjum, þeir sem settu upp þennan skynjara hafa væntanlega ekki lent á svona hjálplegum og góðum sölumanni.