Þetta er kannski ekkert sérlega áhugavert en hér eru nokkrar sögur úr umferðinni í Reykjavík, þrjár þeirra gerðust síðasta föstudag.
Fyrst var ég að beygja inn á Njarðargötuna af Miklubrautunni. Ég var á beygjuakreininni, kominn út á götuna. Vaninn er að það komist alltaf þrír bílar þarna yfir þó að umferðin sé mikil, vandinn var að bílinn sem var þarna fyrir framan mig var bara kyrr inn á gatnamótunum þó það væri komið rautt ljós á þá sem voru á Miklubrautinni, hann var ennþá kyrr þegar það var komið grænt á þá sem voru á Njarðargötunni, hann hreyfði sig ekki fyrren ég byrjaði að flauta á hann.
Næst var ég að fara af Miklubraut inn á Bústaðaveg þegar ég sé að umferðin þar er stopp, ég bakka eins langt og ég get og kem mér í stöðu til að beygja af beygjuakreininni aftur inn á Miklubrautina en þá tek ég eftir að bíllinn sem var fyrir framan mig er að bakka á fullu í áttina að mér, ég flautaði og hann stoppaði rétt fyrir mig.
Þriðja skiptið var ég að koma úr Grafarvogi á Höfðabakkanum að fara að beygja inn á Miklubrautina, þar tekur maður og svínar á mig þannig að ég þurfti að snarbremsa.
Daginn áður var ég að beygja af Miklubrautinni inn á Orkuna og þá tekur bíllinn fyrir framan mig allt í einu upp á því að stoppa á beygjuakreininni. Ég næ að stoppa auðveldlega en mér sýndist að einhverjir sem voru fyrir aftan mig hafi næstum lent í árekstri.
Í öllum þess tilfellum var ég að beygja af eða á Miklubrautina… Verst að það er búið að loka Vatnsmýrarveginum.