Í gær fórum við Eygló Gullna hringinn, Þingvelli – Geysi – Gullfoss. Ég hafði bara einu sinni komið á Þingvelli en aldrei að Geysi eða Gullfossi.
Þegar við komum á Þingvelli þá byrjuðum við að fara í allt aðra átt en ferðamennirnir fara yfirleitt, við enduðum ofan á klettum á milli gjáa. Við röltum heillengi þarna ofan á, alltaf að kíkja eftir leið niður aftur en það var ekki svo einfalt, við enduðum loks út á þjóðveg. Þá fórum við ofan í gjá sem virðist heita, allavega einhver hluti hennar, Snókagjá. Þetta var greinilega ekki mikið farin leið þó það væri smá slóði þarna, þetta var líka ekki sérstaklega greiðfær leið, oft þurftum við að klöngrast yfir grjót. Ég náði að misstíga mig illa, ekki við að klifra heldur bara á einhverri blautri mold þegar ég var ekki að vanda mig. Eftir að hafa legið í smá tíma náði ég mér nógu vel til að halda áfram. Að lokum komust við aftur inn á aðalferðamannasvæðið, þá hafði göngutúrinn tekið nærri tvo klukkutíma. Við bleyttum tærnar í Öxará sem hressti okkur töluvert.
Við fórum næst að ná í nestið okkur, rétt hjá bílastæðinu sat fólk sem skemmti sér vel, þarna var ungur karlmaður sem var sífellt að pota hendinni eitthvað í klofið á vinkonu sinni sem skríkti af hlátri eða ánægju. Áhugavert. Við borðuðum nestið okkar við Öxará og fórum stuttu seinna aftur af stað.
Næsta stopp var Geysir, reyndar væri kannski réttara að segja Geysissvæðið enda er Geysir sjálfur frekar rólegur, gýs bara svona tvisvar á dag. Við byrjuðum á að villast inn á afgirt svæði (Eygló: „ég vill prufa að fara inn um þetta hlið“) en enduðum loks á réttum slóðum. Við sáum strax nokkuð stórt gos í Strokk (enda gýs hann á svona fimm mínútna fresti) og færðum okkur þá að Geysi.
Fólk var greinilega ekki smeykt við Geysi og gekk alveg upp að honum þannig að við ákváðum að gera það líka, þegar við komum að honum þá sáum við vatnið rísa frekar snöggt upp, fólk lagði snöggt á flótta (ég var sérstaklega snöggur að koma mér burt enda langar mig ekki til að láta sjóða á mér húðina). Geysir róaðist aðeins þannig að Eygló hægði á sér, ætlaði ekki að hlaupa að óþörfu en þá byrjaði að rjúka nokkuð vel uppúr honum. Ég kallaði á hana og hún lét loksins undan og kom sér aðeins lengra í burtu. Þá fór Geysir að gjósa, hann gerði það nokkrum sinnum, ekki mjög stór gos reyndar en eitt var sérstaklega áhrifamikið.
Ég náði þessari ágætu mynd af einu gosinu, takið eftir hvað gamli túristinn er miklu hugrakkari en ég. Ég er annars afskaplega ánægður hvernig steininn sem er notaður til að merkja Geysi kom óvart inn á myndina.
Við fórum aftur að Geysi og skoðuðum hann aðeins. Í kringum okkur var fólk sem hélt að Geysir hefði verið alveg hættur að gjósa og var að útskýra þetta fyrir einhverjum erlendum ferðamanni, við ákváðum að vera ekkert að leiðrétta þetta. Reyndar stendur líka á upplýsingaskilti þarna að Geysir sé hættur að gjósa.
Við ákváðum að fylgjast með öðru gosi í Strokk áður en við myndum yfirgefa svæðið, við komum okkur fyrir við kaðlana. Það var ákaflega fyndið að fylgjast með fólkinu sem var að bíða eftir gosi, margir voru stjarfir með myndavélina að bíða, eftirvæntingin gríðarlega þegar vatnið hoppaði örlítið upp og síðan hálfgerð vonbrigði þegar hann gaus pínulitlu gosi.
Fólk byrjaði að koma sér í burtu en ég ákvað að bíða aðeins enda fannst mér líklegt að næsta gos yrði töluvert öflugra og það væri í raun stutt í það. Ég hafði rétt fyrir mér, það tók ekki nema svona tvær mínútur fyrir Strokk að gjósa aftur. Mér fannst það gos ekki alveg nógu stórt þannig að ég stakk upp á við myndum bíða aðeins lengur en Eygló nennti því ekki. Við vorum ekki komin útaf svæðinu þegar Strokkur gaus enn á ný og í það skiptið var gosið stórt. Við hefðum átt að bíða og sjá það í nærmynd.
Klukkan var þarna alveg að verða fimm en samkvæmt upphaflegu plani átti Eygló að fara í matarboð klukkan sex, við ákváðum að halda samt áfram. Gullfoss var nokkuð flottur en satt best að segja gerðist nú fátt áhugavert þar, ég náði bara þremur myndum af fossinum þar sem rafhlöðurnar kláruðust.
Síðan fórum við heim. Ég er nokkuð viss um að sagan sem ég skrifaði í gærkvöldi var betri en talvan fraus áður en sú útgáfa var birt.