Mótmælt á vitlausum stað

Stúdentaráð er að skipuleggja mótmæli við Þjóðarbókhlöðuna á fimmtudagskvöld, ég tel að þetta sé ekki rétti staðurinn fyrir mótmælin enda hefur Þjóðarbókhlaðan gert mikið til að koma til móts við nemendur. Stúdentaráð er með þá tillögu að loka fjórðu hæðinni á kvöldin. Ég verð að segja að það er ákaflega lítið vit í því, Námsbókasafnið yrði lokað og flestallar bækur væru óaðgengilegar. Stúdentaráð segir að þetta muni kosta átta milljónir í stað fjórtán (þetta á að vera byggt á útreikningum frá Þjóðarbókhlöðunni), ég verð að segja að ég skil ekki hvernig þetta dæmi á að ganga upp. En aðalatriðið er að þetta er ekki eitthvað sem Bókhlaðan getur lagað, það var Háskólinn sem dró fjárveitinguna til baka.

Ættu stúdentar að mótmæla við skrifstofu Páls Skúlasonar í staðinn? Nei, enda er Páll sjálfur fjársveltur. Hvar á þá að mótmæla? Augljóslega við Menntamálaráðuneytið, Alþingi eða Stjórnarráðið, þar er fólkið sem neitar að borga Háskólanum fyrir alla nemendur sem sækja nám þar. Hvers vegna gerir Stúdentaráð þetta ekki? Það er augljóst hvar rót vandans er, hann er ekki á Þjóðarbókhlöðunni heldur hjá stjórnvöldum.