Þessi færsla er tileinkuð litla Raskatinu mínu, eða reyndar ekki en það er samt honum að kenna að ég er að skrifa hana núna. Ég ætlaði að skrifa hana í gær en það datt upp fyrir.
En svo ég komi mér að verki þá kom sending í gær, ég varð ákaflega glaður fyrst en minna glaður þegar pósturinn sagði að þetta væri til Eyglóar, ég hafði nefnilega búist við sendingu. Ég sagði Eygló að það væri kominn til hennar pakki og fór síðan að skoða betur og sá að merkingin var „E. G. Seleyjarson“ (þá get ég bætt við enn einu AKA), ég hirti þá pakkann og nú var það Eygló sem varð minna glöð.
Pakkinn var frá Sviss sem kom mér á óvart en þrátt fyrir það varð ég mjög glaður þegar ég opnaði hann og sá að þar var Queen bolur og undir honum voru tveir diskar, þvílík ánægja. Queenbolurinn er með svona silfruðu skjaldarmerki. Diskarnir tveir voru Queen II með Queen og tónlistin úr myndinni Furia sem Brian May samdi.
Queen II verðskuldar vissulega eigin færslu og mun án efa fá hana innan skamms, þetta er uppáhalds Queen platan mín, algert meistaraverk og þá sérstaklega meistaraverk Freddie í öllum skilningi. Ég átti þennan disk náttúrulega áður en ég þurfti að fá hann aftur vegna þess að þetta var sérstök japönsk útgáfa mini-lp sem er nákvæm smækkun á upphaflega albúminu. Reyndar er aðalástæðan sú að það er töluvert klúður með skiptingar milli laga á gamla disknum mínum. Gamli diskurinn er reyndar líka með skemmtilega prentvillu, The Fairy Fellers Masterstroke er kallað The Fairy Tellers Masterstroke.
Furia er frönsk mynd frá árinu 2000 sem ég held að hafi ekki gengið sérstaklega vel en tónlistin er eftir Brian May og er að sjálfssögðu ákaflega flott, Eygló virtist meiraðsegja falla fyrir þessu við fyrstu hlustun. Ég beið svo lengi með að kaupa diskinn af því ég átti ekki pening á þessum tíma eða allavega eyddi ég honum í Freddie „boxið“ sem var vel þess virði.
Annars þá skulum við víkja aftur að Raskatinu, ég hvet hann eindregið til að hlusta á fyrstu fimm plötur Queen áður en hann níðir þá aftur. Queen, Queen II, Sheer Heart Attack, A Night at the Opera og A Day at the Races (jafnvel skella News of the World með líka). Eftir þessa hlustun þá ætti Raskatið vonandi að skilja hvers vegna Metallica og G’n’R líta svona upp til Queen.