Skyrdagurinn mikli

Skyrdagurinn krefst yfirferðar og jafnvel forsögu, hvort þetta er meira fyrir mig eða ykkur er ekki gott að segja, líklega meira fyrir mig.

Það var á föstudaginn fyrir rúmlega viku sem Vésteinn stakk upp á því á spjallinu okkar Vantrúarseggja að við myndum sýna heimildarmyndina um Helga Hóseasson (hann hafði þegar fengið leyfi höfunda) í Snarrót þann 10. október þegar 32 ár væru liðinn frá því að skyrinu var slett. Ég svaraði nokkuð fljótt og spurði þá hvenær þingsetningin væri og hvort það væri ekki gott tilefni, síðan mundi ég eftir og minntist á að við höfðum einhvern tímann talað um að mæta á þingsetningu með skyr og borða það meðan þingmenn færu framhjá. Og ég talaði aðeins við sjálfan mig á spjallinu og var þá að lokum kominn með grunnhugmyndina að því hvað við ættum að gera.

Þetta var rætt fram og til baka, ég minntist á þetta við fólk og það var alveg ljóst að þetta gæti tekist vel og þetta gæti tekist illa. Á sunnudaginn var ákveðið að láta vaða, við undirbjuggum skyrdaginn, sömdum fréttatilkynningar og fórum fram og til baka með orðalag (hálfgerð nefndarvinna). Ég var sífellt að reyna að stjórna þessu þannig að við værum bara að taka eitt skref í einu þannig að við værum ekki að hugsa um allt á sama tíma.

Fréttatilkynningin var send út á þriðjudag og daginn eftir spjallaði Fréttablaðið við mig og Bylgjan yfirheyrði mig (ég vildi að þeir væru jafn harkalegir við dulspekiliðið þarna hjá ÍÚ), ég er samt ekkert ósáttur við Bylgjumenn þó þeir hafi verið harðir. Um kvöldið var sendur út tölvupóstur til þingmanna.

Á fimmtudag var skyrið keypt, það var stórfyndið að sjá allt þetta skyr. Það kom líka í ljós að Helgi Hóseasson sjálfur myndi hugsanlega mæta, við höfðum varla þorað að vona það, buðum honum en hefðum í raun verið ákaflega sáttir ef hann hefði einungis lánað okkur skilti. Vésteinn var settur í að spjalla við Helga, Vésteinn upplýsti líka um guðlastsföndrið sitt. Um kvöldið fór ég að ná í barmmerkin sem Palli og Stebbi höfðu tekið að sér að hanna, prenta og pressa fyrir okkur. Stebbi kom með ráðleggingar og uppástungur sem hjálpuðu, hann hefur reynsluna.

Á föstudagsmorgun vaknaði ég snemma, þurfti að skutla Eygló í vinnuna svo ég gæti haft bílinn. Ég gat ekkert sofnað eftir þetta, var í raun of spenntur til að leggja mig. Ég ákvað að senda ítrekun til fjölmiðla, þar minntist ég á að Helgi myndi hugsanlega koma. Ég hringdi í stúdentana til að tryggja að þær væru vaknaðir, föstudagar eru yfirleitt notaðir til að sofa frameftir þegar enginn er skólinn. Síðan hringdi RÚV í mig og spjallaði aðeins, vildi vita hvort við ætluðum að kasta skyrinu og ég held ég hafi jafnvel heyrt vonbrigðistón í röddinni þegar ég lýsti yfir að við myndum ekki gera neitt svoleiðis. Tóti af Fréttablaðinu hafði líka samband og spurði um Helga enda ákaflega vinveittur honum. Brjálaður morgun.

Hvernig ferðast maður um með 64 dollur af skyri? Hvernig er best að geyma skyr svo það sé hægt að labba með það? Ég ákvað að nota gamla íþróttatösku sem Eygló á. Skyrið tók meira pláss en ég hélt, ég byrjaði að fylla miðhólfið og bjóst við að ég gæti haft eitthvað dót með mér í hinum hólfunum en nei, ég þurfti að fylla þau líka. Það var stórkostlegt að sjá töskuna þegar ég hafði lokið af mér, 64 skyrdollur smellpössuðu oní, það hefði ekki komist ein dolla í viðbót. Ég hafði líka með mér hlý föt, diktafón, myndavél, kókómjólk og barmmerkin, allt nauðsynlegt.

Við Hjalti vorum mættir á góðum tíma í Snarrót þar sem við fengum lánað borð en Kalli var seinn fyrir, við ákváðum að lokum að fara bara með allt dótið sjálfir. Það hefði verið vert að taka mynd af okkur röltandi inn í bæ með plastborð, stútfulla íþróttatösku, stól (ef Helgi vildi sitja), fæturna undan plastborðinu og ýmsan annan farangur. Ég get sagt ykkur að 64 dollur af skyri eru þyngri en margur myndi halda. Á leiðinni rákumst við á fólk sem spurði hvað við værum að gera, við útskýrðum það og fengum andlegan stuðning frá þeim, ég hefði verið til í að fá stuðninginn líkamlega.

Við settum upp á Austurvelli og hittum þar Darri sem er nýkominn til liðs við Vantrú (ég var að henda inn fyrstu greininni hans rétt áðan, til hamingju með afmælið Darri). Við vorum komnir 12:45, löngu á undan öllum öðrum, lögreglan kom og spjallaði við okkur en þeir voru frekar rólegir yfir þessu. Kalli mætti síðan seint en mætti þó.

Fyrsta lífsmarkið var þegar Helgi Hjörvar og Einar Már Sigurðsson komu, við kölluðum á þá og þeir komu. Þeir tóku sinn tíma að velja en enduðu báðir á jarðaberjaskyri, af því það er rautt. Báðir kurteisir og indælir. Síðan kom upp vandamál sem ég hafði séð fyrir en ekki leyst, maður þekkir ekki alla þingmennina og þó maður viti að einhver sé þingmaður þá man maður ekki öll þessi nöfn. Við gátum þar af leiðandi ekki kallað á alla sem okkur grunaði að væru þingmenn, kjánalegt. Björn Bjarnason var einbeittur í að horfa ekki í áttina að okkur, ef ég þekki Björn rétt þá hefur hann án efa lesið tölvupóstinn sinn og vitað af okkur.

Ágúst Ólafur Ágústsson fékk hjá okkur ferskjuskyr og lýsti yfir stuðningi við aðskilnað ríkis og kirkju, takk fyrir það Ágúst. Halldór Ásgrímsson gekk framhjá og ég kallaði á hann, hann sagði eitthvað sem ég heyrði ekki og kom ekki til okkar. Össur Skarphéðinsson kallaðist líka á við okkur og sagðist hafa fengið sér skyr nú þegar. Jóhanna Sigurðardóttir var á hraðferð og vildi fá seinna.

Vésteinn hringdi og sagði að hann væri við ráðhúsið með Helga sjálfan og þyrfti einhverja til að halda á skiltum, ég sendi Kalla og Hjalta í þetta og innan skamms komu þeir tilbaka. Helgi var með skiltin sín, við lánuðu herstöðvaandstæðingum allavega eitt skilti sem átti meira heima í þeirra aðgerð. Ég var með Helga eftir það, skrapp reyndar aðeins frá honum þegar þess þurfti.

Stuttu eftir að Helgi kom þá sá ég Kristinn H. Gunnarsson koma, skyrborðið var töluvert frá okkur þannig að ég kallaði í Hjalta sem kom stökkvandi með tvær skyrdollur. Kristinn fékk að velja sér tegund og það er uppáhaldsmyndin mín frá deginum. Hjalti hallar sér fram með tvær skyrdósir, Helgi Hóseasson með mótmælaspjald í bakgrunninum og Kristinn hallar sér á móti Hjalta. Brilljant.

Á þessum tímapunkti var Austurvöllur að fyllast af fólki og maður sá að fjöldi manns horfði á Helga einsog stjörnu, Helgi átti marga skoðanabræður þarna, bæði friðarsinna og trúleysingja. Helgi var myndaður í bak og fyrir, Stöð 2 tók síðan við hann viðtal. Helgi tók fram að hann hefði ekki verið við þingsetningu í 32 ár, ekki síðan hann sletti skyrinu, ég hafði ekki verið viss um það og var ánægður að fá að vita þetta með vissu. Stuttu seinna hringdi Bylgjan í mig og þar sem ég var að hugsa um ótal hluti í einu þá gerði ég mig ekki alveg skiljanlegan þannig að orðalagið á frétt þeirra um málið var örlítið skringilegt, það var mér að kenna.

Biggi kom og einnig Ingibjörg nágranni Helga sem hefur mikið hjálpað honum, Birgir fékk Krosslafsskiltið og var mjög glaður. Við Alþingishúsið fóru lögreglumenn að marsera og Vésteinn klappaði fyrir þeim til að hæðast að þeim, mannfjöldinn tók undir. Helga fannst ekkert vit í að klappa en ég benti á að lögreglumönnunum þætti örugglega óþægilegt að heyra fólk hæðast að æfingunum þeirra. Helgi hafði illan bifur á lögreglunni enda hefur hann oft verið illa leikinn af þeim, hann vildi ekki fara of nálægt þeim til að byrja með. Við Helgi horfðum á þingmenn ganga í kirkju úr fjarlægð.

Skyrborðið var fært alveg upp að köðlunum sem voru til að girða þingmennina inni, lögreglan var ekki alveg viss hvað gera skyldi en Hjalti, Kalli og Vésteinn stóðu fastir og það fékk að vera. Flott.

Við Ingibjörg og Biggi reyndum að sannfæra Helga til að koma nær, hann var tregur en að lokum fékkst hann til koma nálægt kaðlinum en ekki alveg upp að. Hvað skyldu lögreglumenn hafa hugsað? Ætli þeir sem stóðu stjarfir með höndina upp að húfinni hafi hugsað til félaga sinna sem hreyfðu sig ekki á meðan Helgi skvetti skyrinu? Hver veit, allavega var gott að hafa hann þarna.

Þegar þingmenn gengu í þinghúsið þá stóðu ótal mótmælendur við kaðallinn, Herstöðvaandstæðingar, félagar Ísland-Palestína, kennarar og trúleysingjar. Ég fékk að standa við hliðina á Helga Hóseassyni frægasta mótmælanda Íslands, því gleymi ég aldrei.

Þegar þingmennirnir voru komnir inn þá þurfti að ákveða hvað við skyldum gera næst, planið hafði verið að leysa okkar aðgerð upp þá og þegar. Spurningin var hvað við skyldum gera við afgangsskyrið, lögreglan var ekki tilbúinn að ferja það inn í þinghúsið þannig að ég greiddi atkvæði með því að gefa fólkinu þarna skyrið. Við ákváðum að bíða eftir að Ólafur Ragnar kæmi út, við biðum töluvert lengi en ekkert bólaði á forsetanum. Ég bað bílstjóra forsetans um að taka skyr fyrir Ólaf en hann vildi það ekki.

Helgi var orðinn þreyttur þannig að við ákváðum að skutla honum heim, minn bíll var nær (og stöðumælirinn að renna út, ég eyddi einhverjum hundraðköllum í stöðumæla á skyrdeginum) þannig að ég fór að ná í hann. Við komumst ekki nálægt Austurvelli vegna þess að göturnar voru margar lokaðar og allt troðið þannig að ég keyrði að ráðhúsinu. Þessi ökuferð gekk ekki vel, ég fór í kringum tjörnina og þurfti síðan fara einhverja snúninga til að enda réttum megin við götuna. Við náðum að koma skiltunum hans Helga í bílinn minn, Helgi var kvaddur af þeim sem eftir urðu og við ókum af stað.

Ökuferðin var áhugaverð, Helgi spjallaði um hitt og þetta, hrósaði meðal annars barmmerkjunum okkar og einnig merkjunum sem Herstöðvaandstæðingarnir voru að dreifa. Við Helgi hristum höfuðið yfir því hvernig fólk gæti trúað á Guð, ég sagði honum frá því sem ég var nýbúinn að lesa um Dauðahafshandritin og honum fannst það áhugavert. Helgi minntist á hve mælskur Birgir væri og mér heyrðist að hann vildi helst að Biggi kæmi sér í stjórnmálabaráttuna, ég veit ekki hvort það sé framtíðin.

Þegar við komum að leiðarenda þá héldum við saman á skiltunum inn til hans, ég sá þar úrklippusafnið hans og meðal annars grein eftir Steingrím Joð þar sem Helgi hafði merkt við mörg atriði sem hann var sammála. Þegar ég kvaddi Helga þá bað hann mig að bíða og náði í epli, appelsínflösku og nammi handa mér, ég þáði það. Ég veit að þegar ég keyrði aftur niður í bæ þá var ég með þvílíkt kjánaglott á mér, þetta var frábært og mér fannst á Helga að hann væri nærri jafn ánægður og ég.

Þegar ég kom á Austurvöll voru allir Vantrúarseggir farnir en ég fékk að heyra þeirra sögu seinna, Matti mætti líka einmitt um það leyti sem ég fór með Helga. Þeir biðu eftir Ólafi Ragnari en þegar hann kom út þá vildi hann ekki skyr, Dorrit vildi hins vegar fá en lögreglumaður og bílstjóri forsetans stöðvuðu hana. Vésteinn náði frábærri mynd af þessu sem er aðalmyndin í myndasyrpunni sem er á Vantrú.

Eftir að forsetinn var farinn þá gáfu Vantrúarseggir þeim sem vildu skyr, síðan röltu þeir yfir í Snarrót með skyrborðið í fullri reisn (ég asnaðist til að taka töskuna með mér). Á leiðinni til Snarrótar þá varð á vegi þeirra kona með þrjú börn í bíl, börnin voru svöng og grétu og þá buðu Vantrúarseggir konunni skyr, konan varð hissa og spurði hvort þeir væru að selja skyr. Nei, skyrið er ókeypis og þá fengu þau skyr, síðan meira skyr og aðeins meira skyr. Þetta þyrfti einhver að skrifa um sem var á staðnum.

Þeir voru farnir úr Snarrót þegar ég kom þar nema Vésteinn var þar, við spjölluðum í stutta stund en ég lét mig hverfa því bíllinn var á stöðumæli frekar langt í burtu, ég þurfti líka að fara í umræðutíma. Þegar umræðutíminn var nýbyrjaður þá bættist við nýr meðlimur í hópinn minn, Silfurrefurinn sjálfur, fyrrverandi þingmaðurinn. Mér þótti fyndið að spjalla við hann þar sem ég var nýkominn af Austurvelli, með mold á skálmunum og skónum. Ekki tengist þetta aðalsögunni.

Ég sneri aftur í Snarrót til að hitta Véstein svo við gætum sett upp stóla en hann var of seinn, við Þórarinn Haki færðum til húsgögn en að lokum kom Vésteinn. Birgir kom síðan og líka Þóra sem framleiddi myndina um Helga, við spjölluðum saman um málið hans Helga og það er ljóst að þetta verður ekki í síðasta skipti sem við munum vekja athygli á honum.

Einhvern veginn varð kvikmyndasýningin útundan í undirbúningnum og það mættu ekkert sérstaklega margir, ég lét mig hverfa af svæðinu þar sem ég þurfti að sækja Eygló en tók mig samt til og flutti lélega ræðu fyrst. Mér skilst að þetta hafi verið skemmtileg sýning.

Þegar þessu var lokið þá hugsaði ég: Æðislegt að við ákváðum að gera þetta, stórkostlegt hvað þetta gekk vel og sem betur fer er þetta búið.

Þetta var frábært og mér fannst alveg þess virði að skrifa þessa hundlöngu færslu um þetta með óþörfum smáatriðum. Ef eitthvað er vitlaust hjá mér þá gæti það tengst því að það var allt að gerast á sama tíma á þessum degi.