Hópvinna

Það getur verið afskaplega óþægilegt að vinna samvinnuverkefni í skóla. Ef hópurinn eða einstaklingurinn sem maður lendir með er á allt annarri bylgjulengd en maður sjálfur þá getur þetta endað í vitleysu. Vinir mínir hafa lent í því að vinna með fólki sem tekur námið ekki alvarlega, Danni lenti í að vinna verkefni með náunga sem hætti í skóla.

Ég hef hins vegar verið heppnari. Ég hef fjórum sinnum verið í samvinnu við aðra og alltaf hefur það gengið. Það var reyndar þannig að í fyrsta samvinnuverkefninu þá áttum við að vera þrjú saman. Þarna var ég með samstarfskonu Eyglóar og síðan náunga sem við þekktum ekki neitt. Þessi hópvinna fór þannig af stað að við tvö unnum verkefnið í góðri samvinnu en við heyrðum ekki neitt frá náunganum. Undir lok annarinnar byrjaði náunginn að mæta aftur og vildi þá komast aftur inn í hóp en sem betur fer mundi hann ekki með hverjum hann átti að vera og við vorum ekkert að minna hann á það. Það að ætla að bæta upp fyrir svona lélegheit á síðustu stundu er bara út í hött.

Í námskeiðinu um Landsbókasafnið vann ég ritgerð með Eygló, það gekk en við erum samt ekki góðir námsfélagar.

Í skráningu missti ég af tímanum sem skráð var í hópa og fékk þá lista yfir aðra sem ekki höfðu félaga. Ég fór yfir þann lista og sá að á honum var ófrísk stelpa, náungi sem ég hafði ekki alveg trú á og síðan ein stelpa sem virtist fín en ég hafði lítið talað við. Ég sendi þeirri sem var ekki ófrísk skilaboð og bauðst til að vera með henni, það var indælt samstarf og við kláruðum verkefnið um þremur vikum fyrir skiladag. Náunginn sem ég hafði enga trú á var á sama tíma í öðrum kúrs og lenti þá í samvinnu við Danna vin minn og sveik hann með því að hætta. Heppinn ég.

Núna hef ég bara verið í einu samvinnuverkefni og þá aftur með samstarfskonu Eyglóar, sú samvinna gekk frábærlega, við hittumst einu sinni til að skipta með okkur verkum, sendum þetta síðan á milli okkar og þetta steinlá.

Ég vona að þetta gangi áfram svona, ég von líka að hluti af ástæðunni fyrir því að þetta hefur gengið sé sú að ég sé ágætur félagi líka.