Ég heyri alltaf reglulega sögur um fólk sem hefur tilkynnt samkynhneigð sína og síðan dregið það til baka eftir einhvern tíma. Oft fylgir þessu einhvers konar hneykslun. Ég er ekkert hneykslaður á þessu, fólk má bara gera það sem það vill. Ég myndi halda að flestir af þessum aðilum séu tvíkynhneigðir og hafi af einhverjum ástæðum haldið að þeir þyrftu að velja endanlega, ég blæs á slíkt.
Ég held að tvíkynhneigð sé alveg jafn „eðlileg“ (ef ég má nota það ljóta orð) hinar tvær kynhneigðirnar. Tvíkynhneigð bíður líka upp á fleiri möguleika, tvöfaldar líkur manns á stefnumóti einsog Woody Allen benti á (sú tölfræði er samt ófullkomin).
Mér hefur aldrei þótt þessi spurning um hvort kynhneigð sé val eða eðli áhugaverð, mér þykir það ekki skipta nokkru máli. Fólk má elska þá sem það vill og sofa hjá þeim sem vilja fá þá upp í bólið (eða kústaskápinn ef svo ber við). Fólk má eiga kærasta, kærustur og bólfélaga af báðum kynjum, það er ekkert neitt aðalmál.
Fólk má líka vera ringlað í þessum málum og prufa sig áfram, það er allt í lagi.