Bara spil

Við Eygló höfum náð þeim árangri að spila þrjú kvöld í röð. Við byrjuðum á því að spila í Háskólalistapartíinu. Tvö Party & co þar. Þar unnum við Ómar og Freyr bæði spilin. Fyrra spilið tókum við án vanda en seinna spilið dróst fram á nótt og allir að drepast úr þreytu þegar því lauk.

Í fyrrakvöld spiluðum við Popppunkt við Ella, Guðrúnu Svövu, Lalla, Frey og Auði. Það er skemmst frá því að segja að við Eygló rúlluðum þessu upp tvisvar í röð. Held reyndar að þarna hafi oft ráðið að ég er orðinn svínslega góður í að ákvarða hvenær maður tekur sénsa á að stökkva á bjölluna.

Eftir að Lalli, Guðrún og Elli höfðu farið á Stúdentakjallarann þá drógum við fram Lord of the Rings Risk og gerðum tilraun til að spila. Það gekk ekki sérstaklega hratt, Freyr og Auður höfðu spilað með töluvert öðruvísi reglur en við í venjulegu Riski og síðan bættust við allar nýju reglurnar. Við ákváðum að leyfa þeim að hafa spilið fyrst sjálf til að prufa sig áfram og spila bara seinna við þau.

Í gær fórum við að skoða nýju íbúðina hjá Árnýju og Hjörvari. Við fengum gott að borða og spiluðum síðan Catan fram á nótt. Einsog flestir aðrir sem við höfum spilað Catan við þá féllu þau fyrir spilinu. Eygló vann fyrra spilið en ég hið seinna. Voðalega stoltur af því að vinna seinna spilið af því að Eygló og Hjörvar stöðvuðu öll upprunalegu plönin mín. Ég endaði með alla bæi og borgir í kringum tvo hálmreiti.