Foo Fucking Fighters… aftur

Jæja, fór á tónleika. Byrjaði ekki vel því ég gleymdi að taka miðana með í morgun þannig að ég þurfti að fara alla leið heim og til baka eftir vinnu. Það gekk svosem. Fengum okkur síðan Subway en það hefðum við ekki átt að gera því að við litum inn í afmælisveislu hjá Unu frænku og þar voru góðar veitingar.

Við fórum fljótt inn í höll, keyptum okkur bæði boli. Eftir síðustu tónleika ætlaði ég einmitt að kaupa mér bol en þeir voru uppseldir. Við komum okkur fyrir á A-svæði og horfðum á Mínus úr stúku. Þegar kom að Qotsa þá ákváðum við að fara í þvöguna, eða allavega nær sviðinu. Þar hittum við Særúnu og Dúddu. Ég kynnti okkur fyrir Dúddu og hún kannaðist við okkur eftir smá tíma. Ég játa að ég hefði kannski ekki þekkt hana nema vegna þess að hún var með Særúnu.

Queens of the Stone Age voru góðir en ég er ekki nógu mikill fan til að njóta þeirra til fulls. Við vorum á ágætum stað á meðan því stóð. Eftir að Qotsa fór af sviði þá fórum við að kaupa okkur gos og snakk, það var ítrekað gengið framhjá okkur þar til að Dúdda varð grimm og heimtaði þjónustu.

Þegar kom að Foo Fighters þá reyndum við að koma okkur fyrir á svipuðum stað og síðast, hittum þar Laufeyju yfirmann minn frá því í vetur og væntanlegan yfirmann minn næsta vetur. En við gátum ekki verið þar sem við vildum, hávaxið fólk fyrir framan litla kvenfólkið og við fórum eitthvað allt annað. Vorum í raun framar en á Qotsa.

Það var mikil orka í Foo Fighters. Allir voru að troðast og hægt og rólega færðumst við framar. Dave Grohl tók allt í einu tilhlaup út í sal og fólk hljóp á eftir honum, en ekki við. Við komum okkur nær sviðinu. Þegar þarna var komið var ég að reyna að vernda stelpurnar fyrir troðningi sem gekk misvel, ég var reglulega með hönd á mjöðm annað hvort Særúnar eða Dúdda (oftar reyndar á mjöðminni hennar Eyglóar), mér fannst þetta raunar skárra heldur en þegar ég var nærri kominn í rassvasann hjá þeim. Ég var líka orðinn náinn stúlku við hliðina á mér, alltaf eitthvað að klessast upp við hana. Ég vildi að ég væri þvögupervert, þá hefði ég komist í stuð við þetta.

En hvað um það. Við vorum ákaflega nálægt sviðinu undir það síðasta. Ég ákvað að lyfta Særúna upp til að hún sæi sviðið í fullri dýrð, hún var ekkert sérstaklega spennt fyrir því. Ég lyfti Eygló hins vegar reglulega. Þar að auki lyfti ég einhverjum litlum strák sem var alltaf að troða á fótunum mínum.

Taylor Hawkins kom sterkur inn í uppklappinu, söng lag og spilaði á gítar á meðan Grohl fór á trommurnar. Það gladdi mig hins vegar sérstaklega mikið að sjá Queenaðdáandann Taylor taka Freddie Mercury eftirhermuna sína og syngja með áhorfendum. Fjör.

Ég var í tveimur bolum þarna, sá ytri (Foo Fighters bolurinn) var mun blautari en sá innri. Semsagt meiri sviti frá öðrum heldur en frá mér. Það var gott að komast út, við fórum og fengum okkur frostpinna áður en við flúðum Grafarvoginn.

4 thoughts on “Foo Fucking Fighters… aftur”

  1. Já takk fyrir mig. Ég er bara dauðhrædd um að detta í gólfið og troðast undir, þess vegna vil ég ekki láta lyfta mér 🙂

  2. Treystirðu mér ekki? Ég bjargaði meiraðsegja náunganum sem náði trommukjuðanum, hann hefði auðveldlega getað verið troðinn undir ef ég hefði ekki ýtt fólkinu onaf honum.

  3. Af hverju að flýja Grafarvog, nafla Alheimsins?
    P.S. Kommentakerfið þitt man aldrei upplýsingarnar mínar.

Lokað er á athugasemdir.