Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvað ég á að gera þegar ég lýk námi í bókasafns- og upplýsingafræði næsta vor, þá kominn með lögverndaða starfsheitið bókasafns- og upplýsingafræðingur. Í augnablikinu er ein hugmynd efst á blaði og það er mastersnám í þjóðfræði.
Ég játa að metnaður minn í BA-náminu hefur ekki verið mikill, í raun hef ég einungis haft það markmið að halda mér yfir 7.25 í meðaleinkunn. Þetta hefur mér tekist og það er afar ólíklegt að meðaltalið mitt lækki mikið við þessar 21 einingu sem ég á eftir.
Ég hef núna verið að taka þjóðfræði sem aukagrein og í raun verður næsta önn mín einungis innan þeirrar greinar. Ég hef fundið fyrir löngun að læra meira þarna, hef velt upp þeirri hugmynd að uppfæra í tvöfalt BA-próf en fékk þá niðurstöðu að það væri nú ekki sérstaklega spennandi. Til þess að fara í mastersnám í þjóðfræði þá þarf maður að hafa klárað 15 einingar á BA-stigi og það hef ég í raun þegar gert. Ég ætla semsagt núna í haust að fara að ræða við Terry Gunnell um möguleikann á mastersnámi og hvernig væri hægt að setja það upp. Mjög spennandi möguleiki þar á ferð.
Ég held líka að ég gæti hugsanlega reddað mér hlutastarfi við mitt hæfi með mastersnáminu, það eru til dæmis ýmis verkefni á bókasöfnum sem eru ekki háð reglulegum vinnutíma, skráning og flokkun til dæmis. Ég verð að skoða þetta þegar á líður.
Íbúðakaupin voru vissulega plönuð með það til hliðsjónar að ég gæti vel verið í námi í þrjú ár. Við höfum reiknað það út að við getum vel lifað jafnvel þó Eygló finni sér ekki vinnu strax. Reyndar er staðan hjá Eygló þannig í augnablikinu að hún á auðveldlega að geta reddað sér vinnu þegar hún útskrifast núna í október.