Það er að verða undarlegt umhorfs hér í íbúðinni. Kassar útum allt og hillurnar tómar. Í raun er ekki mikið eftir sem á eftir að pakka. Föt, eldhúsdót og eitthvað drasl í viðbót. Hlakka til að flytja. Hlakka til þegar við erum **búin** að flytja.
Fór í gær að skoða ísskápa og uppþvottavélar, fékk reyndar ekkert útúr því nema staðfestingu á að við værum með góð kaup í sigtinu með ísskápa. Verra með uppþvottavélina, hún er uppseld. Síðan vonar maður að sófinn verði kominn aftur í IKEA um það leyti sem við flytjum.
Við fáum væntanlega afhent næsta sunnudag eða mánudag, þá ætlum við að taka okkur til og endanlega ákvörðun um litaval. Hvar ætti maður annars að kaupa málningu? Hvar er ódýrast og best? Hvert er annars hlutfallið milli fermetra/lítra í málningunni? Nennir einhver að hjálpa okkur (eða mér, Eygló verður fyrir austan) að mála? Hefur einhver gaman að svoleiðis. Væntanlega verða loftin ekki máluð þannig að þetta ætti ekki að verða of erfitt.
Hvar kaupir maður olíu til að bera á parket? Þurfum eitthvað magn af því væntanlega. Það er verkefnið sem við þurfum að vinna eftir að hafa málað.
Og síðan verður maður að fá einhverja til að hjálpa við flutninga. Það ætti að vera auðvelt, þetta er af jarðhæð yfir á jarðhæð. Verður ekki einfaldara.
Þetta verður allt mikið þægilegra heldur en síðast. Þá vissum við ekkert um hvenær við gætum fengið íbúðina fyrr en um fjögurleytið en við þurftum að yfirgefa gömlu íbúðina á miðnætti. Þar var ekki einu sinni pláss til að pakka öllu dótinu, þurftum að klára að pakka eftir að við höfðum flutt mesta dótið.
Seljahlíð – Furulundur – Stekkjargerði – Melgerði – Skarðshlíð – Hraun – Skarðshlíð – Búðasíða – Hrísalundur – Stekkjargerði – Kotárgerði – Norðurgata – Stekkjargerði – Hvassaleiti – Eggertsgata – Bakkarnir. Flutningar númer 15. Ef ég endist þarna í meira en fjögur og hálft ár þá slæ ég metið sem sett var í Hrísalundi. Ég er ekkert sérstakur aðdáandi flutninga en þessir eru nauðsynlegir til að teygja aðeins úr sér.