Við fórum í bíó í gær á Wedding Crashers. Fyndin mynd, mæli með henni. Við lentum hins vegar í vandræðum með að komast á hana. Við ætluðum að fara á hana fyrr í vikunni í Regnboganum en þá kom í ljós að vitlaus sýningartími hafði verið prentaður í blaðinu þannig að hún var byrjuð þegar við komum. Við ákváðum að reyna aftur í gær og þá gekk örlítið betur en samt var það klúður. Við ákváðum að treysta ekki Blaðinu heldur notuðum kvikmyndir.is.
Myndin átti að byrja klukkan 22:30 þannig að þegar við komum um það leyti bjuggumst við við því að geta farið beint inn og horft á auglýsingarnar sem tröllríða bíósýningunum. En svo fór ekki. Við komum og það var lokað inn. Við ákváðum að koma okkur bara inn og þá var myndin í fullum gangi. Við settumst niður, héldum að myndin hefði byrjað á réttum tíma svona einu sinni, en þá benti einhver indæll mér á að myndin væri að klárast. Við þutum út og skoðuðum miðann þar sem stóð að myndin ætti að byrja klukkan 23:00. Ég verð að gera ráð fyrir að Regnboginn sé ekki að standa sig í að auglýsa réttar tímasetningar. Ég kíkti á Fréttablaðið og þar stóð að myndin ætti að byrja klukkan 22:50 þannig að þetta virðist bara vera almennt vitlaust.