Fer að koma

Við fáum íbúðina á mánudaginn, allavega, og stefnum núna á að byrja að mála samdægurs. Lokaákvörðun um liti verður því væntanlega tekin um helgina og við förum líka að fá málningardót lánað. Ef allt gengur þá ættum við að geta borið olíu á parketið áður en Eygló fer austur. Síðan dunda ég mér við að skipta um tengla og rofa (ef með þarf), setja upp ljós, færa eldhússkápinn og allt hitt sem nauðsynlegt er. Kannski ég gisti bara þarna enda er styttra í vinnuna úr Bökkunum.

Síðan þarf ég að fá mér adsl-tengingu. Í raun mun ég halda bara áfram að treysta á Háskólanetið í því en ég þarf að láta virkja símalínuna mína fyrir adsl. Síðan þarf maður að fá heimasíma í leiðinni. Held ég fari til Ogvoðafóns með það á þeirri forsendu að þeir eru ekki Síminn. Hins vegar þarf ég kannski að leita til Símans til að fá mér Breiðbandstengingu.

Helgin fer í undirbúning og pökkun. Dagur flutnings verður ákveðinn seinna með tilliti til heimkomu Eyglóar. Væntanlegir sjálfboðaliðar sem ætla að hjálpa við flutninginn geta glatt sig við að hér er farið af jarðhæð á jarðhæð. Við Eygló erum líka meðvituð um kassaþyngd þannig að lítið er um þunga hluti.