Minning um Dr. Anne Clyde (1946-2005)

Dagurinn hefur farið í duglegheit innan heimilisins, að vissu leyti af því að það er margt að gera en einnig til að dreifa huganum. Það er voðalega skrýtið að Anne Clyde sé dáin. Í mínum huga þá hefur hún frá upphafi gnæft yfir bókasafns- og upplýsingafræðiskor. Það er ekki bara af því að hún var prófessorinn heldur líka af því að persóna hennar var svo sterk. Hún var fræðimaður á heimsmælikvarða, formaður einnar fastanefndar IFLA. Oft hugsaði ég hve heppin við værum að hafa hana í litlu skorinni okkar.

Þegar ég mætti á minn fyrsta deildarfund án þess að vita nokkuð í minn haus þá hjálpuðu Anne og Ösp, túlkurinn hennar, mér að átta mig á aðstæðum. Seinna meir þá sat ég deildarfund þar sem lögð var fram tillaga um að fara af stað með MLIS námið í bókasafns- og upplýsingafræði. Anne kynnti málið. Ég man varla eftir að hafa séð nokkra manneskju flytja mál sitt af jafn miklu öryggi og rökfestu, ég dáðist að henni þarna.

Þó ég teldi mig vera hálfgerðan sérfræðing í netnotkun þegar ég hóf nám mitt hjá Anne þá kenndi hún mér fjölmargt sem ég hef notað bæði í námi og vinnu. Hún var líka alltaf með puttann á púlsinum enda nauðsynlegt á hennar sérsviði. Hún hafði meiri aga í sínum kennslustundum en almennt tíðkast, vei þeim sem gleymdi að slökkva á farsímanum sínum fyrir tíma hjá henni. Hún var líka mjög fyndin, held að við húmor okkar hafi verið mjög svipaður. Hún laumaði inn bröndurum í kennsluna og hló sjálf hiklaust að eigin fyndni þó aðrir væru ekki endilega að fatta. Brosið hennar var prakkaralegt.

Við upphafi síðustu annar þá kom hún aftur úr rannsóknarleyfi. Það hafði greinilega farið vel með hana. Hún var lífsglöð og afslöppuð. Það gerir manni erfiðara að skilja að hún sé dáin. Það er undarlegt að maður eigi aldrei eftir að spjalla við hana, ekki um netið, námið né nokkuð annað. En ég er ákaflega þakklátur að hafa fengið að kynnast henni. Hún var einn af þessum kennurum sem hefur raunverulega áhrif á mann.