Ég fékk undarlegan tölvupóst í gær:
Sæll Óli,
Fyrir ekki margt fyrir löngu skrifaðir þú færslu á síðu þína þar sem
þú fjallar um ákveðið orðalag sem ég nota um hópa sem bera titla sem
ég get sjálfur ekki notað um viðkomandi hópa (og hence, kalla þá
sjálfsskipaða):
https://truflun.net/oligneisti/013037.html
Við færsluna gerir piltur að nafni „AndriÞ“ athugasemd og velti því
fyrir sér að senda mér línu til að „sjá hver viðbrögðin yrðu“. Þessa
línu fékk ég því miður ekki, og ég sé ekki neinn tengil frá þinni síðu
yfir á síðu í hans nafni. Ég var því að velta því fyrir mér hvort þú
þekktir hann ekki, og þar með netfang hans. Ef svo er, mætti ég nokkuð
fá það?
Kveðja,
Geir Ágústsson.ES. Ég reit nokkur orð um gagnrýni við orðalagi mínu, og vonandi skýra
þau það sem áður var óskýrt:
http://geiragustsson.blogspot.com/2005/08/drullupollinn-og-ofsalegt-vald.html
Ég veit ekki hvort ég hef nokkuð við þetta að bæta. Geir Ágústsson, sjálfskipaður sjálfskipari.
Þetta minnir mig á að Friðbjörn Orri sem ég talaði um um daginn hefur skrifað meira um New Orleans og svör „ungra vinstri manna við þeim skrifum“ (1,2,3,). Reyndar er áhugavert að hann vísar aldrei á þá gagnrýni sem hann fær. Sjálfur hef ég áráttu á að vísa á þau skrif sem ég er að kommenta um, þá þarf fólk ekki einungis að treysta á mína útgáfu af málflutningi þeirra sem ég er að gagnrýna. Hann talar meðal annars um einhverja bandaríska skoðanabræður sína, sem hann nefnir reyndar ekki á nafn (nema að Laura Bush sé sammála honum), sem virðast alveg sammála honum um New Orleans. Ja, hérna, mikið þætti mér gaman að sjá þessa sérfræðinga mæta á bandarískar sjónvarpsstöðvar og endurtaka þvaðrið sem íslenski vinur þeirra hefur skrifað á bloggið sitt.
Sjálfur á ég auðvelt með að skilja að fólk hafi ekki yfirgefið borgina þegar fellibylurinn var á leiðinni, fáir hefðu getað ímyndað sér hve illa myndi fara og engin trygging fyrir því að hægt væri að komast á öruggari stað. Bush, sem er persónulegur vinur Friðbjörns Orra, var líka alveg steinhissa á hve illa fór. Friðbjörn Orri segir líka:
Réttilega urðu sjúklingar eftir á spítölum og gamalt fólk varð eftir á elliheimilum. En athugið það, ágætu vinstrimenn, að það voru allt ríkisreknar stofnanir þar sem starfsfólkinu var alveg sama og enginn eigandi að rekstrinum.
Tveimur vikum áður en þessar línur voru skrifaðar birtist þessi frétta á Mogganum: Eigendur sjúkrahúss í New Orleans ákærðir vegna vanrækslu í starfit. Væntanlega fór þetta framhjá heimildarmönnum Friðbjörns Orra. Ég veit ekki alveg af hverju starfsfólki í einkageiranum ætti að þykja vænna um sjúklinga sína en ríkisstarfsmönnum (ég hef unnið bæði fyrir ríki og einkafyrirtæki án þess að það hefði nokkur áhrif á það hvernig ég vann mína vinnu). Mín reynsla er sú að þeir ríkisstarfsmenn sem vinna í heilbrigðisgeiranum sé mikið til hugsjónafólk sem vinnur í þessum störfum af því að vill hjálpa í stað þess að eltast við peninga. Sjálfur er ég hlynntur því að taka peninga af Friðbirni Orra og láta starfsfólk í heilbrigðisgeiranum hafa það.
Og af því ég er sósíalisti þá hefði ég að sjálfssögðu skattpínt Bandaríkjamenn og látið þá borga fyrir betri flóðvarnargarða (eða allvega ekki tekið peninga úr þeim verkefnum einsog skoðanabræður Friðbjörns Orra gerðu), ég hefði fyrirskipað að rútur yrðu þjóðnýttar í þeim tilgangi að flytja fólk frá borginni og ég hefði skipað fyrir um að lestirnar myndu hætta að rukka fyrir að flytja frá New Orleans. Vondur sósíalisti.