Hjalið hans Egils

Eftir að Egill Helgason skrifaði um Vantrú og Richard Dawkins þá lagði ég fyrir hann einfalda spurningu:

Mig langaði að spyrja Egil hvað það væri við kenningarnar um „eigingjarna genið“ sem honum þykir nöturlegt?

Egill hafði semsagt kallað kenningar Dawkins nöturlegar. Mig grunar að Egill Helgason hafi ekki hugmynd um hvað hann er að tala og það að hann hafi ekki séð sér fært að svara spurningu minni er vísbending í þá átt. Það er náttúrulega vitað að kenningin um eigingjarna genið er mjög misskilin og þá aðallega af þeim sem ekki hafa haft fyrir því að lesa sér til. Það er til fullt af fólki sem heldur að kenningin gangi út á að í þróun þá borgi eigingirni sig alltaf. Málið er að sjálfssögðu snúnara en þetta og eitt af því sem að kenningin útskýrir er það hvers vegna við hjálpum fólki í kringum okkur.

Egill sagði líka:

Þættirnir [sem Dawkins gerði nýlega um trúarbrögð] heita Rót alls ills – hvorki meira né minna.

Þetta er náttúrulega bara rangt. Þættirnir heita The root of all evil? með áherslu á spurningarmerkið. Reyndar er eitt það fyrsta sem Dawkins segir í þættinum það að trúarbrögð séu ekki rót alls ills. Egill hefði gott af því að horfa á þættina ef hann ætlar að tjá sig um þá.

En þetta er svosem eins og flest sem kemur frá Agli, einfeldningslegt hjal.