Ég var að horfa á viðtal við Rubin á Stöð 2. Þar lét Sveinn Guðmarsson kallinn komast upp með að ljúga því að ásakanir mótmælenda væru flestar fengnar af bloggsíðum vinstri manna. Blaðið sem var látið ganga var með vísunum á vefsíður en engar þeirra voru bloggsíður, meðal annars var vísað á National Review sem seint telst bloggsíða og myndi aldrei nokkru sinni flokkast sem vinstri sinnuð. Sömu sögu er að segja um það sem kemur fram á Friðarvefnum, engar bloggsíður.
Nú gæti verið að Rubin sé ekki lygari heldur að hann sé það fáfróður að halda að allar netsíður séu bloggsíður en ég efast einhvern veginn. Nú hefur kallinn lært þetta trikk að ásaka gagnrýnendur sína um að nota bloggsíður vinstri manna sem heimildir til að grafa undan þeim. Mikið hefði verið gaman að Sveinn hefði unnið örlitla (slá slóðir inn í vafrann sinn) rannsóknarvinnu til að athuga þessar staðhæfingar hans en nei.
Rubin notaði einnig strámannsrökvilluna og sagði að líklega væru þessir mótmælendur þannig að þeir vildu láta handtaka alla sem eru þeim ósammála.
Mikið er ég þakklátur Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands að bjóða þessum manni í heimsókn, væntanlega hefði verið of erfitt fyrir Sendiráð Bandaríkjanna að leigja fyrirlestrasal til að dreifa áróðri sínum.
Ég tek aftur fram að það er ekkert að marka mig þar sem ég er bara vinstri sinnaður bloggari.