Ég sést á mynd sem fylgir frétt á morgunblaðinu. Í röðinni minni sést meðal annars Guðmundur Rafn Geirdal, við hlið mér en Fjölni við hlið Guðmunds, Sigrún hinum megin við mig. Við hlið Sigrúnar eru tveir þjóðfræðinemar, þær Jóhanna og Helga, hinum megin við þær er Ólafur deildarforseti.
Um fyrirlesturinn sjálfan er lítið að segja, fulltrúi Þjóðarhreyfingarinnar sagði það best að það eina nýja í fyrirlestrinum hefðu verið brandararnir sem hann sagði. Hann var einkar lipur við að komast hjá því að svara óþægilegum spurningum. Hann svaraði oft í löngu máli og sagði þá mikið sem tengdist spurningunni lauslega en ekki samt í raun.
Hann hjó framhjá spurningu Þórarins Haka um olíu/viðskiptahagsmuni með því að segja að Bandaríkjamenn hefðu eytt það miklum peningum í stríðið og uppbyggingu að þeir væru í mínus í þessu máli. Þarna er litið framhjá því að peningarnir flæða frá skattgreiðendum til fyrirtækja.
Annað sem hann gerði einu sinni var að segja að fólk væri að fjárfesta í fasteignum á ákveðnum svæðum í Írak, til dæmis í sumum borgarhlutum Bagdað. En hvað með aðra hluta landsins og borgarinnar?
Rubin notaði líka rökvilluna poisoning the well þegar hann staðhæfði að hinar og þessar upplýsingar væru bara fengnar af einhverjum „bloggsíðum vinstri manna“ sem væri ekki treystandi. Þetta reyndi hann meðal annars þegar vitnað var í bók Richard Clarkes (var það ekki bókin hans annars?)! Augljóslega er ekki öllum upplýsingum treystandi en þarna keyrði hann um of á þessu og vonandi hefur fólk séð í gegnum þetta.
Ég sé í Morgunblaðinu að það er eitthvað talað um að einhverjir aðilar hafi verið með frammíköll, þetta gerðist örsjaldan og þá voru það yfirleitt fólk sem hafði verið að spyrja spurningar og ekki fengið svar sem var að ítreka fyrirspurnina. Rubin var mjög hrokafullur þegar hann var aðeins byrjaður að missa sig og ef þetta hefði verið lengra þá hefði þetta orðið mjög áhugavert.
Annars þá fatta ég ekki hvers vegna Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er að standa í að fá þennan mann til að halda fyrirlestra, ég hélt að stofnunin væri fyrst og fremst í smáríkjarannsóknum.
Eftir fyrirlesturinn voru líflegar umræður milli manna, meðal annars Elíasar Davíðssonar og Jóns Vals Jenssonar. Ég blandaði mér ekki í þær. Mig grunar að seinni fyrirlestur dagsins verði áhugaverðari, og að umræðan eftir hann verði harðari.
En ekki treysta orði sem hér er sagt. Þetta er nefnilega bara bloggsíða vinstri manns.