14:43 á Ramada Jarvis hótelinu í Glasgow
Það sést ekki hér í Glasgow að það sé Páskadagur. Búðir almennt opnar og ekkert vesen. Hverjum er ekki sama um upprisu Jesú?
En við fórum af stað tíu mínútur í fimm í morgun. Það var ekki gaman að vakna en við vorum samt ekki í vandræðum með það. Þegar við komum á flugvöllinn lentum við í smá tungumálaerfiðleikum þegar við vorum að fara inn á stæðið hjá Securitas. Síðan lentum við í veseni að finna stæði, allt pakkað þar. Síðan áttuðum við okkur ekki á því hvar við ættum að fara inn í flugstöðina. Þessi vandræði eru flest teng framkvæmdum á svæðinu.
Á Leifsstöð hittum við Dr. Gunna. Við höfðum reyndar búist við því þar sem hann talaði um ferð til Aberdeen í blogginu sínu í gær. Maðurinn er annars orðinn grannur. Svei mér þá. Annars var dvölin á Leifsstöð tíðindalaus, reyndar þurfti Eygló nokkrar tilraunir til að komast í gegnum vopnaleitina en það hófst að lokum.
Við áttum að sitja við hliðina á einhverri skoskri konu í vélinni en hún fór bara og skyldi okkur ein eftir með þrjú sæti. Ég horfði síðan á Monk, hlustaði á Guards! Guards! og fylltist skelfingu við flugtak og lendingu.
Við vorum snögg í gegnum flugvöllinn í Glasgow, það var reyndar löng biðröð í vegabréfaeftirlitinu, maðurinn þar sagði að ég hefði Lovely Smile. Við fengum hins vegar töskurnar okkar mjög fljótt. Við tókum síðan rútu inn í bæ. Við rötuðum fljótlega á hótelið, villtumst ekkert, og fleygðum töskunum okkar þar inn. Við gátum reyndar ekki fengið herbergið strax enda snemma á ferð. Þá fórum við aftur út og hlustuðum eftir sekkjapíputónlist sem hljómaði. Þar var um ræða böskara á Buchanan stræti. Við litum inn í Bordersbókabúðina og ég keypti mér bók Joseph Campbells, The Hero with a thousand faces.
Við röltum upp þessa göngugötu og stoppuðum hér og þar. Virgin Megastore varð næstum til þess að Eygló fríkaði út. Forbidden Planet var minni en samt eiginlega skemmtilegri. Við fengum okkur síðan snöggan hádegismat og fórum aftur í átt að hótelinu okkar. Á heimleiðinni fundum við skemmtilega bolabúð, Flip, sem við versluðum við. Núna erum við á hótelinu. Herbergið er lítið en með sjónvarpi, sturtu og baði. Mjög fínt barasta.