Annar í Glasgow

Annar í páskum, klukkan 17:46 á Ramada Jarvis hótelinu
Í gær komumst við að því að það eru engar sængur hér. Það þýðir að ég sef með lak en Eygló með teppi.

Eftir að ég við tjékkuðum okkur inn á hótelið í gær þá lögðum við okkur aðeins og fórum síðan á rölt um bæinn. Við enduðum með að fá okkur að borða á stað sem hét væntanlega Italimania. Maturinn þar var bara góður. Við röltum síðan meira um, kíktum hvort að við kæmust í bíó en það var ekkert áhugavert í sýningu. Við röltum síðan að George Square þar sem styttum af mörgum frægum Skotum hefur verið hrúgað saman. Enginn þeirra virtist samt heita George. Walter Scott er með heiðurssess á súlu. Eftir þetta fórum við í Tesco að skoða matvörur innfæddra. Ég keypti mér kók og appelsínur. Kókið hér er bara gott sem er gott því þeir eiga engin góð appelsíngos og Pepsíið þeirra er viðbjóður.

Fórum á hótelið, kveiktum á sjónvarpinu þar sem við sáum með öðru auganum heimdildarmynd um drottninguna sem er alveg að verða áttræð, Derren Brown og L.A. Confidential.

Við vöknuðum í morgun og fengum okkur morgunmat á hótelinu. Pylsurnar voru frekar ógeðfelldar, beikonið of hræðilegt til að prufa og eggin ekkert spes. Það var hins vegar gott að borða Hash brownies og bakaðar baunir og mig grunar að það verði morgunmaturinn í fyrramálið.

Við ráfuðum næst um og ákváðum að skoða ánna Clyde, hugsanlega fljót en ekki á. Margar brýr þarna, sumar fallegar. Við röltum út á Glasgow Greens og þar fórum við í Peoples Palace og Winter Gardens. Gosbrunnurinn fyrir utan er flottur. Safnið, Peoples Palace, er nokkuð gott en það lítur út fyrir að líf í Glasgow hafi verið óbærilegt þar til um 1990. Flest allt virðist hafa verið hræðilegt.

Við ákváðum næst að fara að trúarbragðasafninu St. Mungo. Þegar við vorum alveg að koma að því sáum við skilti sem stóð á Necropolis, virtist vera kirkjugarður. Við fórum þangað inn og sáum fljótt að Necropolis er rétti titillinn. Þetta var borg hinna dauðu. Þetta er það eina sem ég hef séð í Glasgow sem ég flokka sem verður að sjá. Alveg magnað, ég tók ótal myndir en náði ekki nema örlitlu broti af þessu. Maður var eiginlega ekkert að skoða einstaka steina þarna, nema þá sem voru nógu stórir til að standa uppúr. Sá sem vann þessa reðurtáknskeppni er John Knox sem fór fyrir siðbreytingunni hér í Skotlandi. Ef þið farið til Glasgow þá farið í Necropólisið.

Næst kíktum við í dómkirkjuna sem er víst frá 14. öld. Hún var nokkuð flott en féll svoltið í skuggan af borg hinna dauðu. Þar er víst gröf heilags Mungo. Veit ekki hvort hann var alvöru eða hvort hann sé uppdiktaður. Fórum næst á trúarbragðasafnið. Það var alveg ágætt.

Röltum næst niður að Buchanan aftur og fórum í þessa verslunarmiðstöð þar. Ekkert mikið áhugavert svosem. Búðin G4 var kaotísk og skemmtileg reyndar. Leikföng fyrir alla aldurshópa, vélmenni og loftbyssur. Ég reyndi að sannfæra Eygló um að við þyrftum að fá okkur uppblásnar kylfur til að berjast með en hún sagði nei.

Fórum næst á netkaffihús í 20 mínútur og fórum síðan heim.