Emilíana heilsaði okkur

Herald house hótelið í Edinborg klukkan 19:04 að staðartíma þann 18. apríl 2006
Við enduðum gærdaginn á því að fara á TGI Fridays og borða frekar óspennandi mat.  Lentum líka í vandræðum með tips.  Við vitum ekkert hvað á að gefa mikið.  Í þetta skipti gáfum við of mikið að ég held.

Við vöknuðum snemma í morgun og fórum á netkaffihús.  Þar var ég að senda Sigrúnu ferilskrána mína og náms- og rannsóknaráætlun fyrir mastersnámið sem hún ætlaði að skila fyrir mig.  Reyndar gleymdi ég ferilsskránni í fartölvunni þannig að ég þurfti að fara aftur á hótelið og aftur á netkaffihúsið.  Þegar þessu var lokið þá skrapp ég í Virgin Megastore á meðan Eygló fór í Buchanan galleries.  Ég fann Drop the Dead Donkey seríur á dvd og keypti fyrstu tvær.  Áhugavert verður að sjá hvernig þetta hefur elst.

Við tjékkuðum okkur síðan út af hótelinu og fórum upp að Queen’s station og hoppuðum upp í næstu lest til Edinborgar.  Ferðin tók réttar 50 mínútur og kostaði eitthvað um 9 pund á haus.  Þegar við komum til Edinborgar fórum við út á Waverly stöðinni sem voru líklega mistök.  Við villtumst fyrst aðeins um og vorum næstum farin til Leith áður en við brutum okkur leið að Princesstreet.  Það var nokkuð leiðinlegt að rölta með töskurnar í eftirdragi en tilhugsunin um hvernig þetta hefði verið án þess að hafa hjólatöskur gerði okkur þetta auðveldara.

Við komumst að hótelinu og þar heilsaði Emilíana Torrini okkur, ekki í eigin persónu heldur var einhver að spila disk með henni (sem var ennþá í gangi þegar við komum aftur á hótelið í kvöld).  Hótelherbergið virðist bara fínt.  Aðeins stærra en í Glasgow, skrifborð en ekkert baðkar.  Eygló fór strax í sturtu enda illa farin af röltinu.  Hún segir að þetta sé einsog að fara í sturtu á Rauðhólum en það þýðir að það sé lítið flæði.  Ég borgaði hins vegar þrjú pund til að komast á þráðlausa netið á hótelinu í hálftíma.  Setti inn ferðasögufærslur, spjallaði við Sigrúnu, fékk póst og athugaði hvað væri að frétta frá Íslandi.

Við fórum næst út að borða á Bar Italia á Lothian Road sem var mjög fínn staður. Við fórum síða og skoðuðum Edinborgarkastala í aðeins meira návígi, við höfðum séð hann áður enda er hann mjög áberandi.  Mjög áberandi.  Ég myndi segja að utan frá sé hann flottari en Tower of London.  Við röltum síðan niður Royal Mile og skoðuðum fullt af ferðamannabúðum.  Við erum að íhuga pilsin en ég er þegar búinn að kaupa mér eina Jakóbítaskyrtu (ruglast samt alltaf á Jakóbínum og -bítum).  Annars þá gæti maður haldið að önnur hver búð þarna sé bara tekin úr Scotch Myths sýningunni (sem var rætt um í Menningararfinum).  Öllu sem er steríótýpískt skoskt hefur verið hrúgað þarna saman.  Ég er að íhuga að kaupa mér Old reekie bol.

Röltið endar á Holyrood höll sem var lokuð þegar við komumst þangað.  Við ákváðum næst að rölta til baka á hótelið aðra leið en við komum.  Get ekki sagt að sú leið hafi verið mjög spennandi.  Nú erum við á hótelinu að reyna að fá fæturna til að fyrirgefa okkur.