Hæstu hæðir

Herald house hótelið í Edinborg klukkan 22:23 þann 19. apríl
Við fórum á fætur fyrir níu til að ná morgunmatnum.  Hann var ekkert spes.  Það vantaði að hafa svona hash brownies einsog voru í Glasgow.  En hvað um það.  Við fórum síðan af stað í átt að kastalanum.  Í þetta sinn byrjuðum við á að fara meðfram honum sömu megin og Princes Street er.  Það er nokkuð erfitt að lýsa hve yfirþyrmandi hann er þegar maður gengur þarna niðri.  Maður hugsar um alla þá sem hljóta að hafa drepist við að byggja ferlíkið.  Síðan klifum við upp stígana að kastalanum.  Það kostar alveg rúm tíu pund að fara þarna inn og þar að auki keyptum við bók um kastalann.

Þegar inn var komið biðum við eftir að næsti leiðsögutúr hæfist.  Leiðsögumaðurinn byrjaði á að spyrja fólk hvaðan það væri og að sjálfssögðu var áhugaverðast að hér væri fólk frá Íslandi.  Hann sagðist hafa komið og að landið væri fallegt.  Seinna var hann að ræða hvað það kostaði að halda brúðkaup í einhverju húsinu þarna og bað mig um að yfirfæra upphæðina í íslenskar krónur sem ég gerði.

Þegar ég var að hlusta á leiðsögumanninn fór ég aðeins að hugsa um hvernig þessi stétt vinnur.  Þeir eru raunverulega sagnaþulir nútímans (bloggarar eru það ekki enda segja þeir ekki sömu sögurnar aftur og aftur, nema örfáir).  Þeir spinna á staðnum úr þeim efnivið sem þeir hafa, eru tilbúnir með brandara sem þeir vita að virka og svo framvegis.  Það sem er meira heillandi við leiðsögumenn á svona stað er að allt í kringum þá eru menn í sama hlutverki.  Það væri áhugavert að taka upp túr hjá nokkrum leiðsögumönnum nokkrum sinnum yfir árið eða jafnvel lengra tímabil.  Sjá hvort að sögur eða brandarar færist á milli og svo framvegis.  Kannski að ég ætti að hringja í Gary og fara í mastersnám hér til að geta unnið með hugmyndina.  Eða kannski er þetta doktorinn.

Það var margt áhugavert í kastalanum, hann er augljóslega „verður að sjá“.  Það er samt aðallega útsýnið sem gerir hann flottann, það er bara svo stórfenglegt.  Við skoðuðum hitt og þetta í kastalanum.  Mér þótti merkilegt að sjá „The Stone of Destiny“ sem Terry Pratchett aðdáendur kannast við úr… Fifth Elephant væntanlega.  Á þessum stein voru skoskir, enskir og síðan breskir konungar krýndir.  Mikil saga.  Annað þótti mér svoltið undarlegt í safninu og það var hve jollí reynsla það virðist hafa verið hjá stríðsföngunum.  Síðan er áhugavert að bera saman stríðssafnið hér við stríðssafnið í Stokkhólmi.  Þeir sænsku er með rosalega ádeilu en Skotarnir varla neitt.

Mér fannst matsölustaðirnir inn í kastalanum frekar óspennandi þannig að ég mæli með að gestir borði áður en þeir fara inn eða strax eftir.  Túrinn okkar tók alveg fjóra og hálfa klukkustund þannig að það verður að plana vel.  Við keyptum okkar eitthvað minjagripadót líka og fórum síðan.

Við ráfuðum aðeins um eftir þetta, óviss um hvað við ættum að gera við restina af deginum.  Eftir að hafa borðað pasty keypt á Waverlystöðinni og ástundað smá búðarráp ákváðum við að fara út á Calton hill.  Á hæðinni eru nokkur minnismerki en það sem er aðalmálið er bara andrúmsloftið og umhverfið.  Maður gat setið þarna og slappað af með öðrum túristum.  Mæli með því.

En þá var klukkan farin að ganga sex og við vissum ekki hvað við ættum að gera.  Hugmynd fór að gerjast um að skreppa upp á Arthurs Seat sem er hæð í líki sofandi ljóns.  Við fórum þangað, stoppuðum reyndar snöggt hjá Holyrood höllinni til að fara á salernið á veitingastaðnum, mæli ekki með því, frekar subbulegt.  Þegar við komum að hæðinni sagði ég að það gæti ekki verið nema hálftíma gangur þarna upp og það var allavega rétt hjá mér… að vissu leyti.  Við lögðum af stað og urðum fljótt þreytt en héldum áfram og þá komumst við í gírinn.  Við komumst fljótlega á toppinn og þá sáum við að þetta hefði væntanlega ekki verið rétti toppurinn.  Við héldum áfram og áfram þar til að við komum að einhverri tjörn.  Þar sáum við fuglaflensu endur og skilti sem útskýrði fyrir okkur hvað við hefðum gert vitlaust.

Málið er að við fórum upp vitlausa hæð, fórum reyndar aðallega í vitlausa átt.  Við höfðum í reynd gengið allavega tvo þriðju leiðarinnar í kringum hæðirnar þarna.  En við gáfumst ekki upp og héldum upp á við.  Það var reyndar erfitt enda höfðum við farið töluvert langt.  Við komumst loks á toppinn og það tók okkur um einn og hálfan tíma.  Flott útsýni þarna og ég mæli hiklaust með þessu.

Við ákváðum að fara ekki sömu leið til baka heldur þá sem við hefðum átt að fara upp.  Rétt áður en við komumst alla leið niður þá skoðuðum við eldgamlar kapellurústir sem standa þarna.  Þá var klukkan um átta og klukkutíma leið heim.  Við þræddum Royal Mile til að finna spennandi veitingahús en ekkert gekk.  Við beygðum þá inn á South Gate og fundum þar ítalskt veitingahús sem heitir Roma.  Þetta er einmitt systurstaður Bar Italia frá því í gær.  Maturinn var aftur góður, minn betri en í gær en Eyglóar aðeins slakari.  Við hliðina á okkur sátu kaupsýslumenn sem voru að ræða um prentiðnaðinn.  Það var mjög spennandi og ég íhugaði hvort það væri ekki gott að taka upp samtalið á mp3 spilarann til að senda til náungans sem þeir voru að baktala.  Hann virtist samt vera svín þannig að við slepptum því.

Það voru erfið síðustu sporin en við komumst heim um tíuleytið, þá búin að eyða meira og minna 13 klukkutímum í rölt um borgina.  Við erum svo ofvirk í útlöndum.