Lítil, stór og lítil aftur

Í hádeginu komu Erna og Starri í heimsókn með Kötlu litlu sem er bara rétt fjögra mánaða. Hún fæddist í miðjum stúdentaráðskosningum þannig að ég held ég hafi gleymt að minnast á fæðingu hennar hér á síðunni. Sem er skömm að.

Skruppum síðan til ömmu og vorum þar í svona klukkutíma. Á leiðinni út hittum við síðan Mörtu systur hennar Elínar. Það var mjög skrýtið því ég hef örugglega ekki séð hana síðan ég flutti frá Akureyri og ekkert umgengist hana í sjö ár. Núna er hún orðinn stúdent og virðist vera á leið í fjölskyldubransann.

Við fengum Gylfa, Eyþór, Dúdda og Sirrý Fjólu í mat í kvöld. Það var gaman en ég virðist ekki vera að slá í gegn hjá þeirri litlu. Ég gretti mig eitthvað smá framan í hana og hún fór að gráta. Eftir að hún jafnaði sig veifaði ég henni og hún fór aftur að gráta. Það var talað um mig og hún fór að gráta. Hún horfði í áttina að mér og fór að gráta. Ég tek fram að börn eru yfirleitt frekar hrifin af mér þó þau telji mig kannski of stríðinn.