Þegar var farið yfir æviferil ömmu í kirkjunni í gær þá var minnst á að hún hefði unnið á Sólborg á Akureyri. Ég mundi þá svo sterkt eftir því þegar amma var á sínum tíma mjög reglulega að tala um þáttinn Life goes on. Hún var semsagt aðallega að tala um strákinn sem var svo duglegur að bjarga sér þó hann væri þroskaheftur, í vinnu og allt. Ég fór þá að brosa.
Þegar við fórum að leiðinu hans Svavars föðurbróður í gær, sem dó þegar hann var fimmtán ára, spjallaði ég aðeins við nafna hans Guðfinnsson. Þar sem var orðið langt um liðið að við höfðum hist þá var kynningin á þá leið að hann spurði mig hvort ég væri ekki Óli og ég spurði hann hvort að hann væri ekki Svavar. Síðan kynnti ég Eygló fyrir honum og sagði:”þetta er Svavar, ég beit hann þegar ég var lítill”. Hann mundi reyndar ekkert eftir þessu. Þetta var semsagt í Skarðshlíð 13 þar sem afi og amma bjuggu til svona 1984-5. Mig minnir að krakkahópurinn hafi eitthvað verið að deila og skipts í tvö lið og ég hef verið svona 4 ára í mesta lagi. Í kjölfarið var mér kennt að það væri ljótt að bíta fólk.
Reyndar á Svavar Eyþórsson líka svona smá hlutverk í því þegar mér var kenndur munurinn á réttu og röngu. Ég fór í heimsókn til Eyþórs og Sossu með playmokall. Á meðan ég var þar laumaðist ég til að setja svona trúðskraga sem Svavar átti á kallinn minn. Þegar heim kom spurði mamma mig hvaðan kraginn væri kominn, hann hefði ekki verið á kallinum áður en við fórum í heimsóknina. Þá lærði ég að það væri ljótt að stela. Svavar Eyþórs á líka inni hjá mér ótal greiða fyrir að redda bílavandræðum mínum þegar ég fátækur á Akureyri keyrandi um á druslum.
Það voru ótal minningar sem komu upp í gær þegar maður hitti allt þetta fólk sem maður hafði ekki hitt lengi. Man eftir heimsóknum Svövu og Völu til Akureyrar. Man eftir að hafa spilað á badmintonspaðagítar ásamt fleirum í Skarðshlíð 13.
Þegar Sóley Sveinmars var lítil þá lék ég við hana sem stóri frændi, átti þá ekki það mikið af yngri frændsystkinum og hún var sú eina sem bjó á Akureyri. Ég þóttist vera stytta til að stríða henni. Þetta var seinna, í Skarðshlíð 29. Af því að hún heitir í höfuðið á mömmu þá hefur mér alltaf þótt sérstaklega vænt um Sóleyju en það er líka bara þannig að í dag er hún einstaklega hlý manneskja. Og núna orðin tvítug sem er mjög skrýtið.
Hitti líka Hönnu örstutt í gær. Hún kom reglulega til Akureyrar og við vorum oft saman. Mér fannst hún svo mikið yngri en ég og það er því skrýtið að hugsa til þess að hún sé jafngömul Eygló. Ég man að þegar hún var lítil þá varð ég mjög fúll við hana af því að hún nagaði ranann á Masterskalli sem ég átti (hann var semsagt hálfgerður fíll og mig minnir að hann hafi getað sprautað vatni). Síðan man ég þegar hún klagaði mig fyrir að hafa í einhverri fýlu beint löngutöng að henni. En hún beit mig aldrei þannig að ég get nú ekki kvartað mikið.
En já, það er löngu tímabært að halda ættarmót bara með afkomendum afa og ömmu. Þetta eru rúmlega áttatíu stykki og fer vel inn á annað hundraðið með mökum.