Við Eygló fórum á tónleika í gær. Ég tek áhættuna á að móðga Gumma Jóh og fleira gott fólk og tek fram að Emilíana var aðalástæðan fyrir förinni. Hún hlýtur að vera eitthvað mesta krútt í heimi.
Emilíana ein var peningana virði. Það er yndislegt að heyra hana syngja. Það var líka mjög gaman að heyra tvö ný lög með henni en hún hræddi mann þegar hún sagði að það gæti alveg eins verið að næsta plata kæmi út eftir tíu ár. Það var nógu erfitt að bíða hátt í sex ár eftir Fisherman’s Woman. Seinna nýja lagið var sérstaklega skemmtilegt að því leyti að hún leyfði sér að nota kraft raddar sinnar, það hefur hún eiginlega ekkert gert frá því á fyrstu plötum sínum. Og síðan var rosalega gaman að heyra Unemployed in Summertime, manni langaði bara að segja upp vinnunnni og ganga stefnulaust um í sólinni (skortir reyndar sól). Veit ekki með að klína farða út um allt andlit samt.
Ég fór síðast á tónleika með Emilíönu Torrini sumarið 1996, það gerir tíu ár. Missti af tónleikunum í fyrra en var síðan almennt í vitlausum landshluta þar áður. Þeir tónleikar voru hluti af einhverri Bylgjulest, Radíusbræður komu líka fram. Þetta var í Sjallanum og ég laumaðist inn 17 ára gamall (Emilíana sjálf bara 19 ára). Ég er nokkuð viss um að ég var með Þórði á þessum tónleikum.
Þar áður fór ég á tónleika með Emilíönu, Fjallkonunni og Páli Óskari í lok árs 1995. Það var líka í Sjallanum en á vegum Hugins, skólafélags M.A. þannig að ég þurfti ekki að smygla mér inn. Það voru ákaflega skemmtilegir tónleikar sem lauk með Bömpi.
En aftur að gærkvöldinu. Það var víst einhver skosk hljómsveit að spila líka í gær og af því tilefni fór ég í skoska skyrtu. Hef eiginlega ekkert hlustað á Belle & Sebastian áður en þetta bara skemmtilegt. Við entumst hins vegar ekki út tónleikana. Það var ekki hljómsveitinni að kenna heldur reykingafólkinu. Ég skil ekki hvernig í ósköpunum það passar að maður eyði næstu fimm þúsund krónum í tónleikamiða og þurfi að anda að sér viðbjóðssígarettureyk þegar á staðinn er komið. Af hverju er þetta ekki bannað?
Stærri spurning er kannski hvað það er sem veldur því að reykingafólk er svona ógeðslega tillitslaust? Finnst því eðlilegt að ég (og fleiri augljóslega) þurfi að fá höfuðverk og þvo öll fötin mín í hvert skipti sem mér dettur í hug að fara að hlusta á tónlist bara af því að því langar í sígarettu? Ég sem fæ samviskubit yfir því að vera of hávaxinn á tónleikum get ekki fattað þetta hugarfar. Þetta veldur því líka að ég nenni örsjaldan að hlusta á hljómsveitir á svona skemmtistöðum.
Ég hef fyrir reglu að reykja ekki í þvögu, fer alltaf til hliðar, þar sem fólk þarf ekki að eiga á hættu að vaða reykinn. En líklega er það rétt hjá þér að fæstir reykingamenn sýna neina viðleitni.
Það styttist í bannið mikla. Eftir næsta sumar getum við mætt á hvaða búllu sem er til að hlusta á tónlist og farið heim eins og ilmandi sápur, vona ég.
Byrjaðu bara að reykja maður. Þá hættirðu að finna fyrir þessu.
Get ímyndað mér að það væri skemmtilegt að vera í þinni baráttu við að reyna að hætta.
Ég hélt að ég væri mesta krútt í heimi! 😉 En ég er reyndar sammála því að krútt er besta orðið til að lýsa Emilíönu.
Ég vildi að við hefðum farið á Belle and Sebastian í Skotlandi, hefðum þá ekki þurft að þola reyk.
En ég vissi ekki þú reyktir, Arngrímur. Nú hef ég misst allt álit á þér. Jah, þú ert allavega tillitssamur reykingamaður svo kannski sleppur það.
Taktu eftir „eitthvað mesta“, ekki sett fram skilyrðislaus staðhæfing.