Stutta ferðasagan

Við flugum frá Keflavík snemma morguns föstudaginn 4. ágúst.  Við vorum tólf í hópnum.  Ég, Eygló, Eggert, Sigrún Sigmars, Addi hennar, Rósa, Jónbjörn hennar, Jóhanna, Sigrún Ísleifs, Lukka, Jón Kr. og Helga Jóna.  Taskan hennar Jóhönnu týndist en kom í leitirnar tveimur dögum seinna.  Hostelið í Stokkhólmi heitir Gustaf af Klint.  Það er bátur sem hefur verið breytt.  Frekar lítið spennandi.  Pínulítið kýrauga var eina loftræstingin í pínulitlum káetum okkar.  Sturturnar voru þannig að auðvelt var fyrir gesti og gangandi að kíkja inn.  Matsalurinn var heitur en þilfarið indælt með fallegu útsýni yfir nágrennið.  Á þessum stöðum var drukkið og spjallað fram á nótt.  Við röltum um borgina og enduðum kvöldið á bátsskoðunarferð.

Laugardagurinn fór í ýmiskonar rölt.  Sjónhverfingamaðurinn var uppáhald mitt þann daginn.  Við Eygló fórum síðan í lest til Borlänge þar sem við hittum Önnu og Martin.  Við áttum rólegar stundir þar og fórum aftur til Stokkhólms daginn eftir.  Sunnudagskvöldinu var eytt í Gröne Lund tívolíinu.

Mánudaginn fórum við nokkur á baðströnd.  Fórum snöggt í sjóinn og létum okkur líða vel.  Síðan tókum við strætó að Nordiska.  Um kvöldið fórum við að borða á ítölskum veitingastað sem var með afar hæga þjónustu.  Fórum líka út í Riddarahólm að hitta Birgi Jarl.

Við fórum í ferju til Gotlands á þriðjudaginn.  Að mestu notaleg ferð.  Við fórum beint á hostelið sem er fangelsi sem hefur verið breytt.  Síðasti fanginn var þar árið 1998.  Það var að mjög notalegt.  Við Eygló vorum í bústað utan aðalbyggingarinnar.  Þar voru haldin verandarpartí nærri hvert einasta kvöld.  Hópsöngur fór þar ítrekað fram og eru til nokkrar upptökur af því.  Svíarnir í kring voru líka með djamm fram á nótt sem var smá pirrandi þegar við fórum fyrr að sofa en við vorum ekki í stöðu til að gagnrýna það.  Eftir að hafa farið út að borða þá fengum við leiðsögn um Visby frá kennara frá Gotlandsháskóla.  Það var mjög fróðlegt.

Miðvikudaginn skoðuðum við Visby.  Við fengum líka fyrirlestur frá rektor háskólans.  Við fórum á miðaldamarkað og venjulegan markað.  Ég keypti mér miðaldabuxur við miðaldabúninginn.  Við vorum öll með búningana og notuðum þá mismikið.  Skemmtilegt verandarpartí um kvöldið þar sem ég þurfti að túlka frekar undarlega sögu Jóns Kr. fyrir Svía.  Það var óendanlega fyndið.  Hlynur hennar Jóhönnu bættist við hópinn um kvöldið.

Á fimmtudaginn fórum við á aðalsafn bæjarins og síðan tókum við þátt í miðaldabúningaskrúðgöngu.  Eftir hádegið fengum við Eggert það verkefni að passa Hlyn en týndum honum.  Það var út af Ítalanum.  Við hittum Ítalann fyrst í bátnum.  Þar spurði hann Eggert hvort ég og hann værum par.  Kom þá í ljós að báturinn var uppfullur af fólki sem var á leið á Gay Pride.  Á miðvikudagsmorguninn höfðum við síðan hitt Ítalann fyrir utan fangelsið okkar.  Þar stundi hann í átt að Eggerti.  Og eftir skrúðgönguna hittum við Ítalann þar sem við sátum við borð.  Hann heilsaði mér fallega en brosti bara til Eggerts.  Síðan sáum við Eggert hann þar sem við vorum að rölta niður götuna.  Við stungum af og týndum Hlyn í leiðinni.  Jóhanna fann Hlyn sem betur fer.  Við fórum síðan á tónleika og spunaleik.  Það var gaman.  Við fórum líka á afskaplega lélegan víkingapizzastað.  Miðaldahátíðin var skemmtileg á köflum en hún var nær algjörlega á sænsku sem takmarkaði áhuga manns þónokkuð.

Á föstudaginn bjó ég til mynd til að setja á bol fyrir Gotlandsfara.  Nokkrir fengu sér strax en sumir munu gera það seinna.  Ég keypti mér okarína flautu á miðaldamarkaðnum og reyndi að spila á hana.  Við hittum síðan fólk frá háskólanum á bókasafninu.  Þar á meðal var Peder vinur Ella sem hafði verið okkur innan handa með hitt og þetta.  Náðum síðan að fara alveg tíu út að borða saman, yfirleitt voru hóparnir smærri.

Við vorum ótrúlega heppin með veðrið í Svíþjóð.  Það var fyrst á laugardaginn sem ég notaði ekki sólarvörn.  Dagurinn var líka rólegur.  Við fórum á túrnament um kvöldið og fengum þar ýmis konar skemmtun.  Fórum alveg tólf út að borða.  Um kvöldið kom indæll sænskur Íslendingur í heimsókn til okkar og söng með okkur hitt og þetta.

Á sunnudaginn leigðum við níu manna bíl og rúntuðum um Gotland.  Sáum meðal annars dropasteinshella og kúrekaskemmtigarð.  Skoðuðum líka Árbæjarsafn Gotlendinga.  Mestur tími fór samt í tilgangslausa leit að besta kaffihúsi Gotlands.

Um kvöldið vorum við bara með eitt herbergi eftir og fólk var hér og þar að drepa tímann.  Við fórum í ferjuna rétt um tvöleytið.  Þá var þrumuveður og því gott að hafa bílinn ennþá til að ferja fólk og töskur.  Ferðin var ekki rosalega góð en flestir sváfu allan tímann.

Við mættum snemma á Arlanda þar sem við bjuggumst við töfum vegna öryggisgæslu.  En það var ekkert slíkt.  Vélin okkar tafðist hins vegar heillengi þannig að við eyddum ellefu klukkutímum á Arlanda.  Það var ekkert of slæmt.  Við leigðum okkur flest herbergi til að leggja okkur í.  Við vorum svoltið fúl við Iceland Express vegna þess að upplýsingaflæðið til okkar var frekar takmarkað.  En við komumst í loftið um áttaleytið um kvöld.  Mamma Eggerts skutlaði okkur Eygló (og Eggert) heim.