Kerfisbundnar lygar

Það er alveg merkileg árátta hjá trúuðu fólki að reyna sífellt að gera merkismönnum upp trúarskoðanir sem þeir höfðu ekki. Í kynningu á einhverjum þætti sem er á dagskrá í kvöld á RÚV stendur í Fréttablaðinu:

Samt voru margir af merkustu hugsuðum mannkynssögunnar, menn eins og Plató og Einstein, Pýþagoras og Darwin, trúaðir.

Já, Pýþagoras og Platón voru trúaðir þó það sé væntanlega erfitt að finna nokkurn mann sem skrifar undir trúarskoðanir þeirra í dag. Hins vegar er mjög vafasamt að halda þessu fram með Darwin og Einstein. Darwin lýsti sjálfum sér sem agnostískum eftir að hafa í gegnum mikið endurmat á trúarskoðunum sínum í kjölfar dauða dóttur sinnar. Síðan hafa kristnir menn verið duglegir að breiða út lygasögu um að Darwin hafi tekið trú á dánarbeði sínu. Merkilegt nokk þá hafði nákvæmlega sama saga gengið á sínum tíma um afa hans og af því tilefni skrifaði Darwin:

Við getum að minnsta kosti vonað að ekkert af þessu tagi gæti gerst í dag.

Full bjartsýnn hann Darwin greinilega.

Einstein þurfti á sínum tíma að skrifa:

Það var að sjálfssögðu lygi það sem þú last um trúarskoðanir mínar, lygi sem er kerfisbundið endurtekin.

Þetta lýsir óneitanlega lágu sjálfsmati trúmanna að þeir þurfi að gera menn sem voru hálf- eða alveg guðlausir að trúmönnum í von um að ýta undir guðstrú.

Viðbót: Ruglið er greinilega komið frá RÚV.