Nafnspjaldabox

Nafnspjald Ég var að fá þessa sendingu frá Glitni. Box undir nafnspjöld. Með þessu fylgdi blað sem stóð á „Til hamingju með titilinn“. Samt er ég ekki alveg að sjá fyrir mér að þessi nafnspjöld komi sér vel. Það stendur nefnilega ekkert á þeim nema nafnið mitt. Ég get mjög auðveldlega sagt fólki hvað ég heiti og þarf ekki spjald undir það. Nafnið mitt er þar að auki eftirminnilegt þannig að flestir muna það. Glitnir hefði fengið meiri plús frá mér ef þarna hefði líka komið fram titillinn sem er verið að óska mér til hamingju með. Óli Gneisti Sóleyjarson: bókasafns- og upplýsingafræðingur. En þó hefði ekki heldur verið mikið gagn af því þar sem ég er þessa daganna voðalega lítið annað en framhaldsnemi í þjóðfræði og geri afskaplega lítið á sviði bókasafns- og upplýsingafræða.

En þetta er nú samt það skemmtilegasta sem ég hef fengið sent í auglýsingaskyni frá banka. Verst er að framan á er lógó bankans og aftan á boxinu er límklessa sem var notuð til að festa það við bréfið.