Það er laufabrauðsdagur, reyndar er fjörið búið en gaman var það. Ég byrjaði að búa til deig og fletja út um klukkan níu í morgun. Um tíuleytið kom Dagbjört og hjálpaði mér fyrst að fletja út en fór síðan í útskurð. Eggert bættist síðan við og fólk kom þá kolli af kolli. Halli, Rósa, Eva, Jóhanna, Marie og Danni. Ég hélt áfram að fletja út einn og hin voru að skera út en síðan kom Eggert að hjálpa mér. Ég steikti síðan bæði laufabrauð og afganga. Marie var í fyrsta skipti í þessu en hin höfðu öll verið áður í laufabrauðsgerð. Ég útskýrði fyrir henni að laufabrauð væru í raun tilkomin vegna kúgunar Dana.
Þetta gekk allt mjög vel, deigið var betra en áður og ég náði líka að fletja það vel út þannig að ég held að ég hafi fengið um tvöfalt fleiri kökur úr því en í fyrra. Hugsanlega eru kökurnar hátt í hundrað (ég bætti við hálfum skammti í viðbót til að fólk gæti haldið áfram að skera út).
Stemmingin var voðalega indæl og ég held að laufabrauðsdagar séu í raun nálægt því að vera í meira uppáhaldi hjá mér heldur en aðfangadagar.
Myndin sem fylgir færslunni er af köku sem er skorin út af Dagbjörtu, hún á að líkjast mér. Eggert fékk líka eigin köku en mér finnst mín flottari.