Fór á Smáratorg áðan. Í Elkó var ég að rölta í átt að ísskápunum í gegnum þvottavéladeildina. Ég sá þar andlit sem mér fannst ég kannast við og fannst hann kannast líka við mig. Ég fann nafn í huganum og sagði “Sverrir?” og hann játaði. Ég kynnti mig fyrir honum og minnti hann á að hann verið leiðsögumaður minn í Þórshöfn og Kirkjubæ sumarið 2005 (minnst á hann í þessarri ferðasögu í kaflanum sem heitir Villumsgata, Kirkjubær og downtown Þórshöfn). Hann mundi þá vel eftir mér og við spjölluðum heilmikið. Ég vissi reyndar að hann væri hérna á landinu að vinna af því að frændfólk hans var með mér baksviðs á Týstónleikunum í Kaupmannahöfn í október (minntist meiraðsegja á það í þeirri ferðasögu).
Í Bónus sá ég á kassa kunnuglega stúlku. Ég var nokkuð viss um að þetta væri dóttir Ingibjargar frænku en var ekki að fatta hvor þetta væri. Ég náði meiraðsegja að ruglast þegar ég heilsaði henni, spurði hana fyrst að nafni systur hennar. Ég veit ekki hvort ég hefði komist upp með að spyrja hana hvort að hún væri Pálína eins og afi kallaði hana alltaf hér áður fyrr.