Kórbandí

Á haustönn 2005 bauð Telma mér í kórbandí. Ég afþakkaði því ég veit að lágvaxnar stelpur eins og hún Telma eru stórhættulegar í þessarri íþrótt. Eftir að Sigrún fór í kórinn þá byrjaði hún að nefna að ég ætti að koma með og í dag ákvað ég að þiggja boðið þó ég hafi vissulega óttast ofbeldishneigð hennar töluvert. Málið með Háskólakórinn er að ég þekki alveg merkilega marga þar og það mættu alveg fjórir félagar mínir í þetta skipti. Við Siggi og Helgi (bræður Mumma mágs fyrir óinnvígða) mynduðum Akureyararbandalag í byrjun. Síðan var Kalli hennar Telmu á svæðinu líka.

Þetta var bara hressandi en ég giska að ég fari í síðum íþróttabuxum næst. Brenndi mig aðeins. Ég gæti reyndar líka látið vera að fórna mér svona. Einnig væri gott að ég hætti að láta fæturnar flækjast fyrir mér. Ég var ekki frábær bandíspilari í dag og hef svo sem aldrei verið það. Ég náði hins vegar að skora eitt mark í fyrsta leik en síðan ekkert eftir það. Það var reyndar lítið skorað almennt.

Við erum með pínulítil mörk ólíkt því sem var þegar við vorum á Akureyri í bandí. Það varð líka til þess að það var minna um háar sendingar og kylfurnar lægra á lofti. Það urðu líka engar harkalegar deilur þarna eins og gerðist á Akureyri. Ég hafði einmitt ekki spilað bandí síðan á Akureyri og þar var Siggi einmitt líka með. Við komumst líka að því að Helgi hefði endilega viljað vera með á þeim tíma en var bara ekki boðið af því að við héldum að hann vildi það ekki.

Ég ákvað síðan að geyma eitthvað af íþróttadraslinu mínu í Odda því ég stefni á að kaupa mér kort í Íþróttahúsi Háskólans. Það er viðeigandi að ég sé að byrja skipulagða hreyfingu núna þegar ég er að detta úr stúdentapólitíkinni, ég hafði einmitt verið mjög duglegur í ræktinni þar til að Lalli vinur minn dró mig í þá vitleysu fyrir tveimur árum. Tvö ár og tíu kíló (hugsanlega eru öll þessi kíló bara íþyngjandi streita tengd stúdentapólitíkinni). Stefni á að ná þeim af mér.