Klámfengið hugarfar

Ég hef reyndar látið þessa klámumræðu fara algjörlega framhjá mér en mér blöskraði þegar ég sá þetta blogg auglýst á Mogganum.  Þarna er voðalega klámfengin túlkun á forsíðu fermingarblaðs Smáralindar og auglýsingum þar inn í.

Framan á fermingarblaði Smáralindar er mynd af stelpu sem er að seilast eftir bangsa og virðist hissa.  Ef ég ætti að túlka blönduna af böngsum og háum hælum þá myndi ég hugsa að hér sé verið að tákngera ferminguna sem mót barnæsku og fullorðinsára.  „Ég er að ganga í gegnum þessa fullorðinsvígslu en samt er ég ennþá barn. Ég geng um á háhæluðum skóm en þegar enginn sér til þá seilist ég í leikföngin mín.  Hérna hefur einhver laumast inn og séð til mín“.  Sú túlkun sem Guðbjörg Hildur Kolbeinsdóttir setur þarna fram er hins vegar bara sjúk.  Hvað er að?
Guðbjörg talar líka um auglýsingu þar sem er talað um einhvern farða, með fylgir svona sería þar sem Svala Björgvins er máluð eins og dúkka.   Vísað er til myndanna í texta og talað um „lifandi dúkkur“.  Í huga Guðbjargar er þarna beintenging við kynlífsdúkkur! Sjúkt, sjúkt, sjúkt!
Ég tek fram að ég hef alveg séð unglingsstúlkur í frekar ósmekklegum klæðnaði og stellingum í auglýsingum, jafnvel þannig að mér hafi blöskrað.  Þetta var hins vegar ekki slíkt tilvik.

Ég ætla að vona að Smáralind og stúlkan sem er framan á bæklingnum geti farið í mál út af þessum athugasemdum.  Fyrsta skrefið hjá Guðbjörgu væri að sjálfssögðu að biðjast afsökunnar, sérstaklega grey stelpuna.