Stundum er nef ekki skaufi

Túlkun er skemmtilegt fyrirbæri.  Mikið um hana í þjóðfræði.  Freudistarnir augljóslega duglegastir.  Menn eins og Dundes voru alveg ótrúlega naskir á að sjá dýpri merkingu í sögum en maður sá á yfirborðinu.  Augljóslega eru margar túlkanir algjörlega út af kortinu.  Hlægilegar beinlínis.  Dundes fjallaði um þetta og tók sem dæmi brandara þar sem nef var augljóslega tákn fyrir lim.  En hann tók síðan vel og vandlega fram að stundum væri nef bara nef.

Það er nefnilega málið.  Freudistarnir voru búnir að búa til kerfi þar sem eitt átti að tákna annað og sumir tóku þetta bókstaflega.  Þetta táknar alltaf þetta og ég hef rétt fyrir mér af því að ég hef stúderað þessi fræði.  Það sem gerði Dundes að góðum túlkanda var ekki það að hann var svona góður Freudisti.  Það var hins vegar þannig að hann hafði til að bera gott innsæi í stað þess að reyna að þröngva táknkerfinu upp á allt sem hann skoðaði.

Með Dundes og aðra góða túlkendur þá er þetta þannig að þegar þeir koma með sínar greiningar þá hugsar maður „Já! Akkúrat, þetta passar!“ .  Vondir túlkendur fá allt önnur viðbrögð.  Enginn fattar hvernig þeir fengu sínar niðurstöður.   Ef það þarf sérþjálfaða Freudista til að sjá hvað táknmyndirnar þýða þá er væntanlega eitthvað að túlkuninni, hún passar líklega ekki.

Þetta er það sem ég hef hugsað þegar talað er um táknmyndir kláms í sambandi við Smáralindarforsíðuna.  Það er sagt að þarna sé ómeðvitað verið að nota táknmyndir. Ómeðvituð klámvæðing.  Nú er það þannig að það er fullt af myndum af unglingsstúlkum í auglýsingum sem mér finnt óviðeigandi.  Þarna var hins vegar saklaus forsíða sem lenti í hremmingum vegna þess að ákveðið fólk er lélegt í túlkun.   Ef að túlkunin væri góð þá hefði ég hugsað að þetta passaði og þá þyrfti ekki sérstaka þjálfun í því að sjá klám út úr þessu. Góð túlkun er stutt af gögnunum.   Þessi er það ekki.

Ég vísa annars í það sem Hildur snilldur skrifaði um þetta þar að uki í fyrri færslur mínar, sú fyrri inniheldur túlkun og sú seinni fjallaði um nauðsyn þess að huga um afleiðingar skrifa sinna.  Af einhverjum ástæðum er eitthvað sambýlisfólk núna að taka sig saman í því að koma með komment þar.  Þau hafa ekki séð sér fært að segja mér hvers vegna mín túlkun passi ekki betur en sú túlkun sem Guðbjörg Hildur Kolbeinsdóttir kom fram með.