Jæja, í 16 ár hafa Sjálfsstæðismenn verið í ríkisstjórn. Á þeim tíma hefur mikið verið talað um áfengi í matvöruverslanir en ekkert framkvæmt. Núna á síðustu dögum þingsins átti síðan loksins að troða þessu frumvarpi í gegn á engum tíma. Þá segir Ögmundur að það vilji hann ekki, þar sem það sé andstaða innan VG við málið þá verði að ræða málið. Þetta myndu sumir telja í ætt við lýðræðishefðir en aðrir segja að þarna sé verið hóta einhverju. Er í alvörunni eitthvað athugavert við að tala um mál sem ekki er sátt um? Er það ekki líka þannig að töluverður hluti Íslendinga er á móti því að hafa áfengi í matvöruverslunum? Má þeirra rödd ekki heyrast í þinginu. Umræða um málið hefði kannski skilað málamiðlunum sem að hefði gert menn sáttari við málið. Ekkert að því væntanlega?
En nei. Túlkunin verður að í illsku sinni hafi VG stoppað þetta frumvarp með hótunum og leiðindum af því að flokkurinn er ömurlegur og hatar allt. Það er enginn sem stendur á fætur og segir „hey, kannski að það hefði átt að koma fram með þetta frumvarp fyrr og þá ná að klára umræður um það“. Þeir sem voru að reyna að koma frumvarpinu í gegn í þetta skipti höfðu í raun allavega 4 ár til að reyna að koma því í gegn en gerðu það ekki fyrr en nú.
Mig grunar dáltið að einhverjir hafa verið hræddir við það hvernig atkvæði myndu falla hjá til dæmis ákveðnum Sjálfsstæðismönnum og hafi þótt þægilegra að frumvarpið færi ekki núna í gegn. Þar að auki myndi það eyðileggja mikið fyrir ungum Sjálfsstæðismönnum ef það væri leyft að selja áfengi í matvörubúðum, þetta virðist nefnilega vera eina hugsjónamál hjá mörgum þeirra. Ætli þeir myndu ekki upp til hópa hætta og segja „nú er þetta komið, ég þarf ekki að hafa áhyggjur af pólitík lengur því ég get keypt bjór í 10-11“. Já, það er gott að hafa hugsjónir.
Það hvernig þetta mál hefur verið túlkað sýnir augljóslega hvers konar taugatitringur er í gangi hjá fylgismönnum annarra flokka. Það er bara gaman.