Ég fór á 300 og þótti hún góð. Ég reyndi aðeins að pæla í því hvort að eitthvað vit væri í því að myndin sé einhvers konar áróður. Í fyrsta lagi er hún óhóflega óraunveruleg og flestir ættu að átta sig mjög fljótt á því að hér er sagnfræðin töluvert vafasöm. Mig grunar líka að margir telji söguna beinlínis uppspuna eftir að hafa séð myndina. Í öðru lagi þá væri allegorísk túlkun á þá leið að hér væri að tala um heimsveldi með yfirburða mannafla og tækni sem er að ráðast á lítilmagnann sem berst með öllum ráðum til að verja heimaland sitt. Í slíku dæmi er augljóst hvert illa heimsveldið er og hverjir berjast fyrir frelsi sínu.
En þetta var skemmtileg hvatning til þess að rifja aðeins upp Grikklandssöguna. Ég tók mig til eftir á og las nokkrar Wikipediugreinar. Mig grunar líka að ef Sverrir kennir Grikklandssögu á næsta ári þá verði þetta til þess að hann fái fleiri nemendur þangað. Slíkur kúrs myndi freista mín, sérstaklega eftir að hafa verið í Rómarsögunni.