Eygló orðaði það ágætlega í gær. Ef maður hefði ekkert fylgst með pólitík þá hefði maður hugsanlega fallið fyrir áróðri Framsóknarmanni í vísindaferð gærdagsins.
Jónína Bjartmarz náði skemmtilegum hæðum í gær. Best var sú skýring hennar að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á Framsókn síðustu 12 ár væri tilkomin vegna öfundsýki, í raun vildu allir stjórnarandstöðuflokkarnir vera í stjórn með Sjálfsstæðisflokknum. Öfundsýki en ekki hugmyndafræðilegur ágreiningur eða heiðarleg gagnrýni. Það er gott að svona fólk er að leiða þennan flokk því svona skortur af sjálfsgagnrýni sýnir vel hvers vegna Framsókn mun ekki ná sér upp. Reyndar varð öfundssýkiskenning Jónínu enn kjánalegri þegar hún lýsti því yfir að VG og Sjálfsstæðisflokkurinn myndu aldrei geta unnið saman.
Eygló spurði Jónínu hvort að Framsókn myndi geta hugsað sér að starfa í einhvers konar vinstri stjórn með VG en fékk þau svör að slíkt væri mjög ólíklegt. Í raun virtist Jónínu spenntust fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarfi við Sjálfsstæðisflokkinn. Ágætt að hafa það á hreinu.
VG var með ágætt póstkort í síðustu kosningum sem hægt er að sjá hér.
Þar er verið að benda á ýmislegt sem hægt væri að hugsa um annað en álver. Viðmælandi þessa hugmyndaríka fólks gat hins vegar ekki leyft sér að hugsa um neitt annað en álver. Þessi mynd kom upp í hugann þegar Jónína var að tala um að planta álverum þar sem byggðarlög væru í vanda. Ekkert annað virtist komast að. Alveg merkilegt. Síðan héldu þau fram að VG væri hugmyndasnauður varðandi uppbyggingu atvinnulífsins. Þetta fólk hefði nú haft gott af því að fara á Landsfund VG og heyra umræðurnar þar um nýsköpun. Töluvert frjórra hugmyndarflug þar.
Framsóknarmenn voru mjög montnir af því að líf væri á Austfjörðum núna eins og það væri einhver mælikvarði á það hve góð hugmynd Kárahnjúkavirkjun væri. Það er augljóst að ef þú hellir fullt af peningum í byggðarlag þá mun verða blómlegra þar á meðan. Spurningin er hvernig þetta verði þegar uppbyggingarskeiðið er liðið en lokadómurinn verður ekki í nánustu framtíð heldur hvað mun verða um byggðarlög sem eru óhóflega tengd einni atvinnugrein. Viljum við að hagur Íslands í heild sé svona oftengdur einni atvinnugrein? Reynslan af sveiflum í sjávarútvegi hefði átt að kenna fólki hve slæm hugmynd það er.
Eygló var farin að hæðast óhóflega að Framsóknarflokknum, enda búin að drekka dálítið, og klappaði rosalega fyrir því þegar Jónína sagði að aðskilnaður ríkis og kirkju kæmi ekki til greina (eða væri þegar búinn í undarlegum hugmyndaheimi hennar). Sjálfur var ég þægur og í umræðunni um þjóðlega félagshyggju þá sleppti ég því að spyrja hvernig það hugtak myndi hljóma á þýsku.
Stefán Einar tók til máls og skaut á mig eins og í Landsvirkjunnarvísindaferðinni. Ég játa að mér finnst Stefán fyndinn og orðheppinn maður, þetta er þrátt fyrir að við séum ósammála um nærri því allt sem hægt er að vera ósammála um. Fyrir utan allar skoðanir hans þá er hann ágætur.