Bankavesen

Hvað gæti verið ömurlegra en að byrja daginn á því að reyna að redda fökköppi í bankamálum.  Ekkert alvarlegt reyndar, bara pirrandi.  Ég hef í eitt og hálft ár verið að reyna að losna við reikning sem ég er með í S-24 en ekkert gengur.  Ég sendi inn eyðublað í nýja Sparisjóðnum um að láta eyðileggja reikningana þar en ekkert gekk.  Ég ákvað síðan leyfa bara kreditkortinu að renna út en síðan var það bara endurnýjað án þess að ég hefði beðið um það.  Fjórum mánuðum seinna fékk ég blað frá þeim sem virtist hafa verið hálft ár á leiðinni þar sem ég var beðinn um að hafa samband ef ég vildi ekki að kortið yrði endurnýjað.  Þetta blað hafði farið á gamalt heimili þó ég hafi löngu verið búinn að breyta heimilisfanginu í Þjóðskrá.  Maður hefði haldið að fyrirtæki eins og S-24 sem er aðallega á netinu hefði sótt uppfærslur á heimilisfangaskrárnar sínar fyrr.

Núna var komið að árgjaldi á kortinu og ég passaði mig að taka út einu greiðsluna sem var ennþá á því korti, Vodafone.  Það sem gerist er hins vegar að þó að heimasíminn og adsl-ið hafi verið tekið af þessu korti þá var ennþá síminn hennar Eyglóar á kortinu.  Allt er þetta samt í einum pakka.  Ég lét breyta því áðan en það er nú samt þannig að núna er búið að senda rukkun á kort sem ég ætlaði ekkert að endurnýja.  Ég lét því nýja Sparisjóðinn minn áðan í það verk að klára þetta.  Ég hefði tekið eftir Vodafone rukkuninni fyrir löngu síðan en ég fer bara ekki jafn oft í einkabankann minn eftir að helvítis Auðkennislyklarnir voru teknir í notkun.  Bögg.