Ég fór á fyrirlestur áðan um Óhóf. Aðalástæðan fyrir því að ég fór þangað var að fyrirlesarinn var hann Sigurður Ólafsson heimspekikennari úr M.A.. Þrátt fyrir harða samkeppni frá Þorláki Axel og Láru Ágústu þá er SÓ, eins og hann var jafnan kallaður, uppháldskennarinn minn úr M.A..
Þegar SÓ kenndi mér þá barst hann reglulega í tal þegar ég kom í mat til afa og ömmu. Við eigum nefnilega sameiginlegan langafa, hann Gunnlaug Daníelsson. Það var nokkuð skondið að heyra ömmu tala um hálffimmtuga kennarann minn sem „Sigga litla sem var alltaf í svo miklu uppáhaldi hjá ömmu sinni“.
Fá framhaldsskólanámskeið sem hafa haft meiri áhrif á mig en heimspekin hjá SÓ. Í kúrsinum sem ég sótti síðustu helgar þá var gott að hafa grunn í Kant og geta vitnað í „das ding an sich“ og „das ding an mich“. Kant var annars með skrýtinn haus.
Fyrirlesturinn var skemmilegur. Byrjaði á skemmtilegri upprifjun á Aristótelesi og Platóni. Síðan tókst hann á flug og kom með fjölmargar skemmtilegar athugasemdir um óhóf sem var efni fyrirlestursins. Eftir á fór ég og þakkaði honum snöggt fyrir og hann heilsaði mér með nafni. Þótti vænt um það.
Ég ætlaði reyndar að kíkja á þennan sama fyrirlestur hjá SÓ þegar ég var í M.A. um daginn en hafði ekki tíma. Það hefði verið gaman að fá lesturinn í Gamla skóla.
Hvar varstu á þessum fyrirlestri?
Borgarbókasafninu.
Var SÓ að halda fyrirlestur þar! Af hverju er ég ekki látinn vita af svona löguðu? Andskotinn.