Ég verð að játa að mér leiðist fátt meir en hug- og félagsvísindamenn sem þjást af minnimáttarkennd gagnvart raunvísindum.
Hvað er annars málið með það að blöð fá ekki raunvísindamenntað fólk til að fjalla um sín fræði? Það er nefnilega ákaflega pirrandi að sjá umfjöllun um raunvísindi frá fólki sem hefur ekki nokkra menntun til að skilja efnið. Mikið af umfjöllunum um raunvísindi í íslenskum fjölmiðlum er svo slök að ég veit að ég gæti gert mikið betur.
Ekki er ég þó mjög hæfur í þessu. Til dæmis hefði ég aldrei getað tekið The Great Global Warming Swindle jafn ítarlega í gegn og Erlendur gerði um daginn. Það þarf sérþekkingu í þetta.
Afleiðingin er að sjálfssögðu sú að raunvísindi eru skrumskæld í fjölmiðlum. Greinar um vísindarannsóknir virðast til dæmis oft vera hraðþýddar af fólki sem hefur ekkert vit á efninu. Frumsamdar greinar um raunvísindi eru mjög sjaldgæfar.
Þetta er ekkert endilega séríslenskt fyrirbæri en það er samt mjög áberandi hér. Á sama tíma er til staðar gríðarlega öflug og góð umfjöllun (þó að rusl finnist líka) um hugvísindi (og félagsvísindi að einhverju leyti). Ímyndið ykkur ef almenningur hefði aðgang að jafn vandaðri umfjöllun um raunvísindi?
Eru yfirhöfuð einhverjir sem hafa menntun á sviði raunvísinda að vinna á íslenskum fjölmiðlum?